13.12.1986
Sameinað þing: 31. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

1. mál, fjárlög 1987

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Ég er satt að segja svolítið undrandi á þessu. Það er náttúrlega nauðsynlegt að menn fari eftir samvisku sinni, ekki síst í atkvæðagreiðslum, en nú get ég ekki verið sammála hv. 2. þm. Norðurl. e. að krefjast atkvæðagreiðslu um þetta sérstaklega. Mér sýnist að það éti hvort upp annað, þetta sem verið er að greiða um atkvæði núna og síðasti liðurinn sem á að fara að greiða atkvæði um á eftir þar sem síðasti liðurinn hljóðar svo: „Fjmrn. setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.“ Ég get ekki séð annað en það sé hreinn skrípaleikur að fara þannig að ráði sínu að greiða um þetta atkvæði í þrennu lagi. Ég greiði því ekki atkvæði.