15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

88. mál, álagning tímabundinna skatta og gjalda 1987

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Efni þessa frv. er að framlengja ýmsa tekjustofna ríkissjóðs sem eru tímabundnir. Þetta eru gamlir kunningjar sem hér eru á ferð eins og skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og ekki ástæða til að amast við því að sá skattur sé framlengdur, ekki heldur þótt um sé að ræða framlengingu á tímabundnu vörugjaldi og sérstökum breytingum sem gerðar voru á tollskrá. Um skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði hef ég það eitt að segja sjálfur að helst hefði ég kosið að gjaldið væri hærra.

En hér er einn skattur á ferð sem hlýtur að orka tvímælis og það er 1% húsnæðisgjald sem lagt er á söluskattsstofn. Ekki það að á margan hátt hafi verið gæfulegt að gjaldið var lagt á til að efla byggingarsjóði ríkisins heldur er einkum sá hængur á þessu máli nú að það er alls ekki lengur ætlunin að verja gjaldinu óskiptu til byggingarsjóðanna.

Það segir í 9. gr.: „Gjaldið rennur óskipt í ríkissjóð og skal því ráðstafað til útlána á vegum Byggingarsjóðs ríkisins.“ En það er nokkuð ljóst, ef menn virða fyrir sér fjárlög og sjá hvað byggingarsjóðum er þar ætlað, að þessu gjaldi er alls ekki ráðstafað nema að hluta til í þessu skyni. Af þessari ástæðu treystum við okkur í minni hl. ekki til að greiða atkvæði með þessu ákvæði.

Að öðru leyti er ekki hægt að amast við efni þessa frv. eins og þegar hefur komið fram. Formlegt nál. hefur ekki enn verið gefið út, en þetta er afstaða okkar í minni hl. gagnvart efni frv.