21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

35. mál, kjarnorkuverið í Dounreay í Skotlandi

Páll Pétursson:

Herra forseti. Athugasemd mín er fólgin í því að ég hvet hæstv. utanrrh. til þess að fylgjast með þessu máli. Það er mjög alvarlegt mál sem hér hefur verið hreyft. Ég hvet hann til að afla þeirra gagna og reka á eftir þeim sem hann var búinn að leggja drög fyrir að fá. Það er rétt að það komi fram í þessari umræðu að þingmannaráð norðvestursvæðisins, þ.e. samstarfsráð Alþingis og Lögþings Færeyinga og Landsþings Grænlendinga, tók þetta mál til meðferðar og ályktaði um það. Mér er kunnugt um verulegar áhyggjur þingmanna í þessum löndum út af málinu.