15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. fjh.- og viðskn. Ed. hefur á nokkrum fundum rætt um þetta mál. Það verður að segja þá sögu eins og hún er að óhægt er nokkuð um vik að ræða málið. Enda þótt það hafi verið lagt fram strax í október s.l. hefur skammt miðað í umræðum um það, enda kom í ljós í fyrra að ógerlegt var annað en hafa mjög náið og gott samstarf við Nd.-nefnd á síðustu dögum þingsins og eins raunar við fjvn. og samræma þetta mál sjálfum fjárlögunum.

Það spannst nokkur umræða um það þá hvort ekki kynni að vera óeðlilegt að hafa lánsfjárlög í einni nefnd og fjárlögin sjálf í annarri, jafnvel hvort ekki bæri beinlínis að sameina lánsfjárlög og fjárlög í framtíðinni. Þessi umræða heldur vafalaust áfram, en ég hygg að sá andi ríki nú að menn vilji reyna að hafa svipaðan hátt á afgreiðslu beggja málanna og gert var í fyrra, þ.e. að klára málið ekki út úr þessari hv. deild í dag og kannske ekki heldur á morgun heldur bíða fyllri upplýsinga sem eru á leiðinni, t.d. varðandi hitaveitur og svo sérstaklega að því er varðar þau miklu mál sem tengjast nýgerðum kjarasamningum og viðamiklar breytingar sem verða á fjárlögum og þar með öllum fjármálum ríkisins og líka væntanlega að einhverju leyti lánsfjárlögum alveg undir lok þingsins nú fyrir jól. Það verður kannske dálítið erfitt að samræma þetta, en með góðum vilja hygg ég að það muni takast.

Meiri hl. skilar nál. að sjálfsögðu við þessa umræðu, þó það sé takmarkað eins og ég vík að síðar, en ég hygg að hv. minni hl. hafi gripið til þess ráðs að skila sínu nál. ekki fyrr en milli umræðna. Ég get mjög vel skilið þá afstöðu þar sem málið er enn skemmra á veg komið við 2. umr. þess nú en í fyrra af þeim ástæðum, sem ég áðan greindi, að nýgerðir kjarasamningar útheimta viðamiklar breytingar á fjármálum ríkisins. En þótt ekki sé mjög veigamikið það sem ég hef hér að segja ætla ég engu að síður að rekja það sem gerst hefur í nefndinni.

Eins og fram kom í frv. þegar það var lagt fram er heildarfjáröflun til opinberra aðila, þ.e. fjárfestingarlánasjóða atvinnufyrirtækja, áætluð 15 milljarðar 744 millj. kr. Þar af er ráðgert að afla 7 milljarða 464 millj. innanlands og 8 milljarða 280 millj. kr. erlendis og er þá talið að sem næst jöfnuður muni nást við útlönd. Þessar tölur eiga eftir að breytast eitthvað í meðförum nefndarinnar og eru raunar þegar komnar inn breytingar. Síðan kemur það, sem ég áður hef getið, að þessar tölur geta líka breyst vegna kjarasamninganna sem nýgerðir eru.

Í þessu frv. er lántökuheimildum sveitarfélaganna um 350 millj. kr. vegna hitaveitna ekki skipt vegna ónógra upplýsinga sem væntanlegar eru þó í dag eða í fyrramálið, er mér tjáð, en það var nýverið skipaður vinnuhópur af fjmrh. og iðnrh. til að fjalla um fjárhag þeirra hitaveitna sem langverst eru settar og eiga í gífurlegum fjárhagsörðugleikum sem allir þekkja. Þar er um að ræða Hitaveitu Akureyrar, Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og Fjarhitun Vestmannaeyja. En þegar þessar tillögur hópsins liggja fyrir á nefndin að geta tekið þær til athugunar og afgreiðslu og hafði ég hugsað mér að stinga upp á því við formann hv. fjh.- og viðskn. Nd. að haldinn yrði sameiginlegur fundur nefndanna ef neðrideildarmenn telja það ráðlegt. En þegar gerir þó meiri hl. nefndarinnar tillögur um veitingu ríkisábyrgða fyrir ákveðnum lántökum vegna hitaveitna. Er þar um að ræða Hitaveitu Hveragerðis 45 millj. kr., Hitaveitu Siglufjarðar 12 millj. kr., Hitaveitu Eyra 3 millj. kr., Hitaveitu Egilsstaða og Fella 9 millj. kr. Auk þess er gert ráð fyrir að veita Hitaveitu Rangæinga ríkisábyrgð fyrir langtímaláni, sem er að fjárhæð allt að 100 millj. kr., hjá Lánasjóði sveitarfélaga til að skuldbreyta lánum hjá sjóðnum.

Meiri hl. leggur til að inn komi ný grein sem heimilar Útflutningslánasjóði 40 millj. kr. lántöku á árinu 1987. Er þar um að ræða gamla heimild sem ekki hefur verið notuð á þessu ári vegna þess að ekki var þörf á því, en hins vegar er talin þörf á að hafa þetta fjármagn á næsta ári og hygg ég að ekki sé ágreiningur um að þessi heimild verði áfram í lánsfjárlögum.

Fjmrh. hefur á undanförnum árum verið veitt heimild til að ábyrgjast lán með sjálfskuldarábyrgð vegna sölu svonefndra raðskipa. Þetta er gamalt mál sem menn þekkja úr umræðum í þinginu, bæði við umræður um lánsfjárlög og miklu víðtækari umræður. Skipasmíðin hefur farið fram á árunum 19821986 en er ekki einu sinni lokið enn þá og viðskiptabankarnir hafa meira og minna fjármagnað þennan kostnað með erlendum skammtímalántökum.

Það er lokið smíði skips á Seyðisfirði og það var selt til Grindavíkur. Ríkisábyrgðasjóður yfirtók fjármagnskostnað að upphæð 15 millj. kr. í tengslum við þá sölu. Tvö skip eru í smíðum hjá Slippstöðinni á Akureyri, eitt í skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts og eitt hjá Stálvík í Garðabæ. Sala þessara skipa er nú ákveðin og við það miðað að ríkissjóður ábyrgist allt að 80% af kaupverði skipanna með sama hætti og gert er hjá Fiskveiðasjóði eða með sömu hlutdeild. Þá er miðað við að Byggðastofnun láni allt að 5% og að 15% komi frá kaupendum. Í ljósi þessara staðreynda er gert ráð fyrir að allt að 600 millj. kr. ríkisábyrgð verði vegna sölu þessara skipa.

Á þessu ári yfirtók Ríkisábyrgðasjóður togarann Merkúr, sem áður hét Bjarni Benediktsson, og var hann seldur til Ólafsfjarðar. Það er verið að breyta skipinu í frystitogara í Noregi og er skipið selt þannig að veitt er ríkisábyrgð fyrir 80% af söluverði og leitað eftir allt að 160 millj. kr. ríkisábyrgð í því skyni, en kaupendur sjálfir fjármagna 20% kaupverðs. Stálvík í Garðabæ hefur óskað eftir ríkisábyrgð á láni allt að 20 millj. kr. til endurskipulagningar á starfsemi fyrirtækisins, er sú endurskipulagning er talin munu kosta um 35 millj. kr. Ráðgert er að veita fyrirtækinu allt að 20 millj. kr. ríkisábyrgð og er það hér lagt til til að afla nauðsynlegs lánsfjár í þessu skyni.

Þá eru að ósk Seðlabankans teknar inn tvær tillögur sem við teljum að hafi í raun ekki efnislegar breytingar í för með sér fyrir afgreiðslu frv. í öllu falli heldur er þar um tæknileg atriði að ræða sem seðlabankamenn telja mikilvæg fyrir þá aðila sem standa að tæknilegri framkvæmd skuldbreytinga erlendis. Þetta er flókið mál, enda margslunginn fjármálaheimur, ekki síst á síðari árum, en vafalaust er þessi lögfesting nauðsynleg, a.m.k. til öryggis fyrir því að hægt sé að nota t.d. skuldbreytingar þar sem samið er um breytta vexti, breytta mynt o.s.frv. og getur í öllu falli ekki skaðað. Þess vegna leggur meiri hl. til að þessar hugmyndir Seðlabanka og heimildir séu lögfestar og vænti ég að ekki sé ágreiningur um að verða við því.

Að því er varðar aðrar brtt. er fram komin brtt. frá hv. þm. Helga Seljan o.fl. um málefni fatlaðra, skerðingarákvæði í því efni, 18. gr. falli brott. Fjmrh. hefur látið hafa eftir sér að þetta atriði sé í nánari skoðun og raunar lýst því yfir í mínum þingflokki að hann vildi skoða það betur og á ég von á að einhver breyting verði gerð á þessari grein og beini því til flm. hvort hugsanlegt væri að þeir drægju till. til baka til 3. umr. þannig að þá lægi fyrir hvaða samstaða gæti náðst um breytingar eða a.m.k. lægi málið þá skýrar fyrir. Auðvitað er það á þeirra valdi hvað þeir vilja í því efni gera, en ég þykist nokkuð viss um að a.m.k. verði skerðingin sem ákveðin er í þessari grein vegna málefna fatlaðra minni en gert er ráð fyrir og að meiri hl. eða nefndin öll muni flytja brtt. við 3. umr.

Á þskj. 311 er brtt. frá hv. þm. Eiði Guðnasyni varðandi útvarpið. Það er við 27. gr. sem fjallar um að tekjur á árunum 1986-1987 vegna aðflutningsgjalda af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum skuli renna í ríkissjóð. Hann leggur til að sú grein falli niður. Hann mun draga þá till. til baka til 3. umr. vegna þess að það mál er einnig í athugun. Fulltrúar frá Ríkisútvarpinu komu á fund í nefndinni sem að vísu var ekki fullskipaður, því miður, en engu að síður gerðu þeir okkur grein fyrir gífurlegum fjárhagsvanda stofnunarinnar og er verið að athuga hvort einhverjar úrbætur megi í því efni gera.

Ég veit ekki hvort það er mun fleira sem þarf að ræða á þessu stigi málsins. Við fáum hér kannske aðalumræðuna um þetta mál síðar í vikunni því að erfitt er að tæma það nú eins og ég áður hef gert grein fyrir. Ég vil þó geta þess að t.d. er komin umsókn frá Ferðamálasjóði sem óskar eftir ábyrgð fyrir 200 millj. kr. erlendri lántöku, eða lántöku sem væntanlega yrði erlend, í stað 100 millj. og fleiri óskir eru í farvatninu sem við tökum til umræðu á fundi í nefndinni væntanlega á morgun.

Að þessu sögðu hygg ég að ég bæti ekki meiru við nema tilefni gefist til, en legg til að brtt. sem hér eru fluttar af meiri hl. verði samþykktar. Frv. verður skoðað á milli 2. og 3. umr. og þá vænti ég þess að góð samstaða geti tekist, bæði milli stjórnar og stjórnarandstöðu og eins milli deilda og við hv. fjvn. þannig að við getum sómasamlega klárað það og bæði frv. til lánsfjárlaga og sjálf fjárlögin verði afgreidd fyrir næstu helgi.