15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Eins og komið hefur fram er margt óljóst um þetta lánsfjárlagafrumvarp og við erum í nokkurri þoku með það hverjar niðurstöðutölur þess verða þegar öllu er á botninn hvolft. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að afgreiðsla lánsfjárfrumvarps er ákveðið vandræðamál hér í þinginu. Það er verið að reyna að afgreiða frv. í tengslum við fjárlögin en vegna þess að afgreiðsla á lagafrumvarpi í gegnum deildir gengur miklu hægar fyrir sig en afgreiðsla á fjárlagafrumvarpi í gegnum Sþ. þarf að byrja að afgreiða frv. í deildum löngu áður en menn sjá fyrir endann á því hvernig lögin eiga að líta út og hver verður fjárþörf ríkissjóðs, hver verður lántaka ríkissjóðs til að koma fjárlögunum saman. Þetta er auðvitað sérlega áberandi þegar verið er að afgreiða fjárlög með miklum halla eins og nú er verið að gera. Auðvitað kæmi þetta ekki eins að sök ef svo væri ekki. Núna bíðum við nánast með lánsfjáráætlunina og lánsfjárlög eins og opna óútfyllta ávísun. Við vitum að það verður þörf á að gefa út allmyndarlegan gúmmítékka áður en við stöndum upp til að fara í jólaleyfi vegna þess sem á vantar í fjárlagafrumvarpinu en við vitum ekki hversu hár tékkinn þarf að vera.

Annað er mjög óljóst í þessu máli öllu og það eru áformin um lántökur hjá lífeyrissjóðunum. Eins og hér hefur komið fram er gert ráð fyrir að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á árinu 1987 verði um 6700 millj. kr. Jafnframt er gert ráð fyrir því að til byggingarsjóðanna renni um 3700 millj. á næsta ári. Þá eru eftir um 3000 millj. kr. sem óráðstafað er hjá lífeyrissjóðunum en samkvæmt þeim áformum sem nú eru uppi og m.a. einkenna afgreiðslu lánsfjáráætlunar nú við 2. umr. málsins er áformað af hálfu fjmrh. að ríkissjóður taki að láni hjá lífeyrissjóðunum 1300 millj. og fjárfestingarlánasjóði 700 millj., samtals 2000 millj. af þessum 3000 millj. sem eftir eru og er þá ljóst að lífeyrissjóðirnir munu ráðstafa, ef þetta gengur fram, um 85% af sínu ráðstöfunarfé til opinberra aðila.

Ja, öðruvísi mér áður brá má segja um þetta. Ég minnist þess vel þegar ég var í fjmrn. að uppi voru miklir kveinstafir, mikill grátur og gnístran tanna, þegar lífeyrissjóðirnir áttu að gjalda sem lánsfé til opinberra aðila 40% af ráðstöfunarfé sínu. En nú er sem sagt ætlunin að ráðstafa 85% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna til opinberra aðila. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að flokkur hæstv. fjmrh., Sjálfstfl., taldi þetta hina verstu ósvinnu og barðist um á hæl og hnakka að þetta fengi að ganga fram, að 40% af fé lífeyrissjóðanna yrðu til opinberrar ráðstöfunar sem lánsfé fyrst og fremst hjá fjárfestingarlánasjóðnum og byggingarsjóðum og það voru höfð uppi stór orð um það hvílík ósvinna væri á ferð. En núna ætlar hæstv. fjmrh. að taka tvöfalt stærri hlut, þ.e. 85% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna án þess að nokkur virðist hafa mikið við það að athuga.

En auðvitað hlýtur maður að spyrja, vegna þess að enn sem komið er eru þetta aðeins áform: Hafa lífeyrissjóðirnir samþykkt þessi áform? Ef svo er ætla ég aðeins að samgleðjast hæstv. fjinrh. Mér er hins vegar spurn: Hafa þeir samþykkt þetta í raun og veru eða er þetta bara óskhyggja hjá hæstv. fjmrh.? Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að hæstv. ráðh. komi hér í ræðustól og segi okkur frá því hvort hann er búinn að semja við lífeyrissjóðina um þessi áform eða hvort þetta er einber óskhyggja sem ekki styðst við neinn raunveruleika. Því að ef svo væri þá sjáum við að botninn í þessari lánsfjáráætlun er ekki einu sinni uppi í Borgarfirði, hann er einhvers staðar miklu lengra í burtu og hér eru þá á ferðinni tölur sem ekki er mikið mark á takandi.

Að öðru leyti er ekki að orðlengja um þetta frv. Það felur fyrst og fremst í sér fjöldamörg skerðingarákvæði sem í eðli sínu eru fyrst og fremst fjárlagamál. Margar þessar skerðingar orka mjög tvímælis. Við Alþýðubandalagsmenn erum algjörlega andvígir sumum þeirra, t.d. skerðingunni á framlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, sem hv. þm. Helgi Seljan mun gera nánari grein fyrir hér á eftir, eða skerðingunni á framlögum til Ríkisútvarpsins svo annað dæmi sé nefnt, en á hinn bóginn geta slík skerðingarákvæði átt fullan rétt á sér í vissum tilvikum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv. frekar, tek undir það sem var sagt hér áðan að í raun og veru er þessi afgreiðsla við 2. umr. meira formsatriði, það eru svo margir lausir endar í þessu máli öllu að við áttum okkur engan veginn á hver útkoman verður fyrr en á síðara stigi.