15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Haraldur Ólafsson:

Háttvirtur forseti. Ég kem hér aðeins til þess að undirstrika afstöðu mína til tveggja mála. Það er í fyrsta lagi til brtt. hv. 5. landsk. þm. um að fella niður 27. gr. á lánsfjárlögum þar sem rætt er um aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum þeirra. Ég lýsti því yfir við 1. umr. lánsfjárlaga að ég væri andvígur þessari grein og ég mundi greiða atkvæði gegn henni ef til kæmi að þessu yrði haldið til streitu. Ég er enn sömu skoðunar og tel mig óbundinn af öðru en minni eigin sannfæringu í þessu efni.

Hv. 5. landsk. þm. gerði mjög skýra grein fyrir þörf Ríkisútvarpsins fyrir þennan tekjulið og eins og réttilega kom fram þá er ekki eingöngu um að ræða byggingu hins umdeilda útvarpshúss heldur ekki síður endurnýjun á langbylgjukerfinu sem reyndar hefur allt of lengi dregist að framkvæma. Sú aðgerð hlýtur að koma til framkvæmda á allra næstu árum. Það er nokkuð dýr framkvæmd en hún er einnig ein mikilvægasta öryggisaðgerð í þessu landi.

Hins vegar tók ég eftir því í ræðu formanns fjvn., hv. 4. þm. Norðurl. v., að hann sagði að rætt hefði verið um þessi mál við forráðamenn Ríkisútvarpsins og mér skilst að vænta megi tillagna eða fjárframlaga sem gætu að einhverju eða öllu leyti komið í stað þessarar greinar og þætti mér vel ef fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar sæi sér fært að koma með raunhæfar tillögur sem gangi í átt til samkomulags við okkur sem ekki erum samþykk þessari grein eins og hún liggur nú fyrir. Ef ekki þá áskil ég mér allan rétt til þess að greiða atkvæði með brtt. hv. 5. landsk. þm. Varðandi 18. gr. þá er eins og hv. 2. þm. Austurl. tók fram þegar komið fram að fjmrh. hefur ákveðið breytingar á fjárveitingum í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Ég álít að þær eigi að vera meiri og ég vænti þess að unnt reynist að fá verulegar úrbætur í því efni þannig að á þessari stundu vil ég bíða og sjá hvað setur, hvort unnt er að fá verulega leiðréttingu á þessari grein áður en ég tek afstöðu til brtt. hv. 2. þm. Austurl.