15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

229. mál, frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Stefán Benediktsson):

Frú forseti. Ástæða þess að ég tók ekki þátt í framlagningu nál. eins og það kom fyrir er sú að þingflokkur Alþfl. hefur boðað að hann muni flytja brtt. við fjárlög sem snerta þá skattlagningu sem hér er um að ræða, þ.e. með þeim hætti að skerðing á þessum frádrætti vegna fjárfestingar verði til þess að skila meiri tekjum í ríkissjóð samtímis því að reyna að ná fram hækkun á tekjusköttum fyrirtækja þannig að þau skili meiru til samneyslunnar en þau gera miðað við núverandi ástand.

Í grófum dráttum virðast menn standa frammi fyrir þeirri staðreynd núna að um 13% gjaldenda tekjuskatts - og þá er ég ekki að tala um fyrirtæki heldur einstaklinga - greiði um 67% af þeim skatti sem inn kemur og að meiri hluti þess sem við getum kallað fullfrísks fólks greiðir í raun og veru 40-50% af svokölluðum jaðartekjum sínum í tekjutengda skatta. Þá erum við að tala um alla þá skatta sem lagðir eru á tekjur.

Aftur á móti blasir það við að einungis 2800 fyrirtæki af 10 600 framteljandi fyrirtækjum á líðandi ári greiða tekjuskatt. Það segir sig sjálft að þetta getur ekki verið a.m.k. alveg eins og það á að vera að jafnstór hluti fyrirtækja, þ.e. yfir 70% fyrirtækja á Íslandi, skili engum tekjuskatti. Ef verið er að leggja tekjuskatt á til aðstöðujöfnunar þá hljóta fyrirtækin að verða að taka þátt í því til jafns við einstaklinga. Þess vegna og í tengslum við það finnst okkur koma til greina að skerða þessar frádráttarheimildir til þess að skila meiru í ríkissjóð því að ekki virðist nú vanþörf á, en þær brtt. koma ekki fram við framlagningu þessa frv. einfaldlega vegna þess að það hefur verið mjög erfltt að fá upplýsingar um það hvaða áhrif 10, 20 eða 30% skerðing á þessum frádrætti hefði í tekjum. Starfsmenn ráðuneytisins hafa átt í miklum erfiðleikum með að afla þeirra upplýsinga eða reikna sig til niðurstöðu í því máli og búumst við ekki við því að geta flutt brtt. fyrr en við 3. umr. fjárlaga.

Hvað þessu máli að öðru leyti viðvíkur er eðlilegt að ríkisvaldið horfi til þess hlutverks síns að örva fólk til sparnaðar, a.m.k. örva alla þá til sparnaðar sem sparað geta og þetta er ein leið til þess að verðlauna sparnað. Það eru til margar aðrar leiðir til þess að verðlauna sparnað. Það eru til leiðir sem hvetja kannske til miklu víðtækari sparnaðar en hér er verið að tala um því að hér þarf þó nokkuð stórar upphæðir til þess að fólk fái einhverja umbun fyrir sinn sparnað. Mér finnst alveg koma til greina, sérstaklega þegar farið verður í það að einfalda skattakerfið, sem nánast allir eru nú búnir að lofa í framtíðinni, þegar búið verður að fækka eða jafnvel útrýma nánast öllum frádráttarliðum, þá verða menn að hugsa til þess að búa til einhverja þá löggjöf sem örvar fólk til sparnaðar, en þá með þeim hætti að það snerti miklu, miklu fleiri en gert er hérna og þá í formi umbunar sem fólk skilur, þ.e. raunverulegra beinna verðlauna sem tengjast sparnaði og miðast við ákveðnar upphæðir.