21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

36. mál, rannsóknarlektor í sagnfræði

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Þann 17. sept. s.l. setti menntmrh. í stöðu rannsóknarlektors í sagnfræði við heimspekideild Háskóla Íslands. Þessi staða var ekki ný af nálinni heldur hafði prófessor Þór Whitehead gegnt henni um árabil í þeim tilgangi að rannsaka sögu íslenskra utanríkismála. Staðan var skilgreind fyrir þetta sérsvið sagnfræðirannsókna.

Þegar menntmrh. setti í stöðuna í sept. s.l. hafði hins vegar enginn gegnt henni í u.þ.b. fjögur ár. Sá maður sem ráðherrann setti í stöðuna hefur sérmenntun á sviði stjórnmálaheimspeki og eftir því sem best er vitað hefur hann hvergi komið nærri rannsóknum á sögu íslenskra utanríkismála eða sagnfræðirannsóknum. Jafnframt mun ráðherra hafa sett hann í stöðuna til rúmlega þriggja mánaða, en eins og þeir sem nálægt rannsóknum hafa komið vita er ekki líklegt að fræðimaður fái rannsakað mikið og skilað einhverjum niðurstöðum á jafnskömmum tíma. Því vaknar sú spurning sem ég ber fram til hæstv. menntmrh. á þskj. 36: Hvert er hlutverk þessa rannsóknarlektors í sagnfræði? Hvað á hann að rannsaka á þessum 31/2 mánuði sem hann er settur í stöðuna og hvernig á hann að rannsaka sögu íslenskra utanríkismála þegar hann er augljóslega ekki búinn undir slíka rannsóknastarfsemi?

Óljóst er einnig hvort þessi lektor hefur kennslu og stjórnunarskyldu eins og aðrir lektorar Háskólans og því er spurt sérstaklega að því. Jafnframt er um það spurt hvort þess megi vænta að stöður rannsóknarlektora verði stofnaðar í öllum þeim greinum sem nú eru kenndar við Háskóla Íslands eða hvort hér er um einsdæmi og einangraða stöðuveitingu að ræða.