15.12.1986
Neðri deild: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

211. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér aðeins að nefna efnisatriði þeirra mála sem eru á dagskránni undir tölul. 6-9 vegna þess að þessi mál heyra saman.

Það er í fyrsta lagi þannig varðandi frv. um kjarasamninga opinberra starfsmanna að við styðjum það frv. Hér er um að ræða samkomulagsmál samningsaðila og það var lögð á það mikil áhersla af fulltrúum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags kennarafélaga og BHMR að þetta frv. yrði að lögum fyrir áramót þó að tíminn sé stuttur sem þingið fær til þess að fjalla um málið sem er auðvitað afleitt vegna þess að hér er um að ræða stórmál sem á eftir að skipta miklu í samskiptum þessara samningsaðila á komandi árum.

Ég tel hins vegar, herra forseti, að það sé mjög þýðingarmikið sem fram kemur í nál. á þskj. 273 í sambandi við túlkun á verkfallsákvæðum í 14. og 17. gr. frv. Ég hygg að ég hafi tekið rétt eftir að hv. frsm. hafi lesið minnismiðann þannig að þetta álit nefndarinnar liggur fyrir og álit nefndarinnar byggir á samkomulagi samningsaðila um túlkun á verkfallsákvæðum 14. og 17. gr. frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ég vek athygli þar á 3. mgr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Greinar þessar [14. og 17.] eru að mestu efnislega samhljóða 14. og 17. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Í þeim lögum eru engin sérstök ákvæði um samúðarverkföll en þau hafa engu að síður og þrátt fyrir orðalag 14. gr. þeirra laga verið talin heimil.“

Þá vil ég aðeins víkja að frv. um Kjaradóm en það leiðir af sjálfu að um leið og 1. gr. frv. um kjarasamninga opinberra starfsmanna er breytt og rektor Tækniskóla Íslands og ríkisskattanefndarmönnum er bætt þar inn í verður auðvitað að breyta frv. um Kjaradóm til samræmis. Ég vil þó segja fyrir mitt leyti að ég tel að þessi klúbbur sem nú fær úrskurðuð laun í Kjaradómi sé mjög umdeilanlegur. Ég tel að það væri mikið heppilegra að sett væru almenn ákvæði um það hverjir eiga að fara þarna inn og hverjir ekki og að þeim aðilum sé heimilt, sem ákveðnir væru með lögum, að úrskurða hverjir eiga að vera þarna inni og hverjir ekki. Það er mjög mikið vafamál oft og tíðum hvaða úrskurði á að kveða upp í þessu efni. Ég bendi t.d. á starfsmann eins og veðurstofustjóra fyrst þarna er inni vegamálastjóri og verðlagsstjóri. Þá má nefna ótal dæmi önnur um það að það orkar tvímælis hvar markalínan er dregin í sambandi við Kjaradóm. Hér er einnig um að ræða samkomulagsmál sem fulltrúar BHMR, BSRB og BK litu á sem hluta af samkomulagspakka þannig að ég mun fyrir mitt leyti láta þetta frv. fara afskiptalaust hér í gegn.

Hið sama er að segja um frv. um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar hef ég þann fyrirvara að ég tel óþarfa að ganga eins langt og gert er í frv. í því að svipta starfsmenn stjórnarráðsins verkfallsrétti. Það er í raun og veru hægt að teygja þetta ákvæði eins og það er í frv. mjög langt en forráðamenn þessara þrennu samtaka töldu að hér væri einnig um að ræða samkomulagsmál og læt ég það því fyrir mitt leyti kyrrt liggja.

Varðandi frv. á þskj. 239, sem er breyting á lögum um lögreglumenn, nr. 56 29. maí 1972, er ég andvígur því að svipta launamenn verkfallsrétti með þeim hætti sem hér er gert. Þar sem hins vegar lögreglumenn og tollverðir hafa gert samning um að svipta sig verkfallsrétti og sá samningur er birtur í grg. frv. þessa og ákvörðun var tekin í tengslum við gerð kjarasamninga mun ég fyrir mitt leyti sitja hjá við afgreiðslu þess máls.

Ég vil einnig víkja að því, herra forseti, að það hefur verið lagt fram í þinginu frv. til laga - sem er á dagskrá sem 12. mál þessa fundar - um breytingu á lögum um fangelsi og vinnuhæli þar sem gert er ráð fyrir að sömu reglur gildi um fangaverði, lögreglumenn og tollverði. Ég tek það fram nú þegar, ef það mætti flýta fyrir afgreiðslu á því máli þegar þar að kæmi, að ég mun hafa sömu afstöðu til þess og fram hefur komið varðandi frv. á þskj. 239.