15.12.1986
Neðri deild: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að segja örfá orð um þetta lagafrv. Margt get ég tekið undir með hv. 7. þm. Reykv., Guðmundi J. Guðmundssyni. Þar sem hann var ekki hvassari í orðum, að mér fannst, en hann var, jafnkjarkmikill maður og hann er, er ég ekki fær til þess að vera sýnu illyrtari út í þetta. En mér finnst illa að þessu staðið á flestan máta, það verð ég að segja.

Það er fyrst til að taka að Ríkismatið, ferskfiskmatið, hefur nánast verið sá stuðpúði milli kaupanda og seljanda sem nokkurn veginn hefur tryggt frið á milli þeirra, þó að það hafi ekki alltaf verið, það skal játað. En nú á að kippa þessu burtu og þá eiga þeir bara að rífast um hvernig þeir eiga að haga þessu. Mér líst ekki vel á að geti farið fram af nokkru viti. Ég held að illindi hafi oft á tíðum næg verið áður þó að ekki sé verið að egna hér til einvíga sem við sjáum ekki fyrir endann á.

Ég reikna ekki með að ég geti stöðvað þetta frv., ég er ekki maður til þess og ekki fær um það. Ég þykist vita að það sé búið að ganga frá því að þetta verði afgreitt. Ég þykist hafa nokkra reynslu og vit á þessum hlutum og ég bendi aðeins á að í viðbót við það sem ég sagði áðan um friðinn kemur það ábyggilega skýrt fram þegar á reynir að seljandi og kaupandi eru oft sami maður, þ.e. útgerð og fiskverkandi er sami aðilinn. En þá er einn aðili þó eftir sem þetta snertir ekki alllítið og það eru sjómennirnir. Þeir lenda þarna milli steins og sleggju. Og til hvers eiga þeir þá að leita? Það má vera að það sé í lagi eins og stendur að þetta frv. verði afgreitt svona vegna þess að það er rifist um hvern þann mann sem vill starfa á sjó nú orðið og þess vegna mun kannske ekki vera ástæða til, í bili a.m.k., að hafa áhyggjur af því að menn labbi nú bara í land og fái sér hægari atvinnu þar sem þeir geta starfað í friði.

Hv. 7. þm. Reykv. nefndi það að stutt væri síðan þetta mál kom inn og hann fór hér í gegnum lögin, tilvonandi lög og gildandi lög. Ég er ekki þannig í stakk búinn að ég geti neitt borið þau saman. Ég hef hvorki haft tíma né aðstöðu til þess að fylgjast með, eins og hv. þm. nefndi réttilega eru ekki allir með þessi lög, þannig að ég treysti mér ekki til þess að koma með neinar úrbætur í þeim efnum.

Ég heyrði fyrst um það í nóvember á fiskideildarfundi á Austfjörðum að það ætti að leggja þetta mat niður. Þar talaði ég gegn þessu og ég hélt að sú ályktun hefði ábyggilega komist inn á aðalfiskiþing og eftir því sem ég hef frétt þaðan kom það þar til umræðu. Ég bað reyndar um að fá að sjá þær ályktanir sem þar voru samþykktar og ekki samþykktar en það gat ekki orðið í þetta skipti. Ég hygg að það hafi ekki verið alveg átakalaust ef það hefur farið í gegn. Nú undrar mig að vísu á því en þó er ég ekkert undrandi á hinu að útgerðarmenn séu sólgnir í þetta. Ég skil það vel. Það eru kannske sumir sem geta sagt, ef þeir þekkja til, að ég sé útgerðarmaður. Ég er útgerðarmaður að hluta en það lítill að ég tala þó frekar fyrir sjómennina. Það er reyndar ekki nógu gott að tala þannig tvískipt, en það verður að hafa það. Mér skilst líka að Sjómannasambandið hafi jafnvel samþykkt þetta. Ég held þeir hafi ekki hugmynd um hvað þeir eru að biðja um hafi þeir gert það.

Ég ætla ekki að tefja málið meira en þetta. Ég lýsi því yfir að ég er andvígur þessu. Ég er hræddur við þetta og ef á að leggja ferskfiskmatið niður er ég viss um að það koma fram ýmsir annmarkar sem við sjáum ekki fyrir þótt hægt sé að geta sér til um ýmislegt. Ef allt ferskfiskmat á að falla niður hefði verið betra að það hefði verið svolítið atkvæðameira og fylgst betur með fram að þessu því að það hafa oft komið fram hjá okkur, því miður, mjög miklir gallar á þessu eftirliti og það hefur farið fram hjá því ýmislegt sem ekki hefði átt að ske. Ég get nefnt t.d. gámafisk sem hefur verið fluttur út öllum til bölvunar nú á haustdögum og fyrstu daga vetrarins. Það hefur verið öllum til bölvunar. Það hefur farið fiskur út sem átti alls ekki að bjóða á þeim vettvangi og er búinn að skemma mikið fyrir okkur. Það heyrir líka undir þetta hvaða vara fer til vinnslunnar og við höfum nýtt dæmi fyrir okkur sem er búið að stórspilla fyrir okkur. Sami maður hafði bæði matið til vinnslunnar og útflutningsmatið, eða það virðist a.m.k. vera svo, og svona mætti lengi telja. Ég get talið upp ótal slík dæmi þótt ég sleppi því. En ég vara við því að samþykkja þetta. Ég held að ekkert liggi á. Því má ekki fresta þessu og skoða betur, hugsa betur, leita jafnvel til fleiri aðila, þeirra sem standa í þessu stríði daglega, að reyna að hafa þá vöru sem við erum að bjóða af allra bestu gæðum sem nokkur kostur er á?

Eins og hv. 7. þm. Reykv. nefndi mun það vera rétt að Kanadamenn mundu fúslega taka við þessu starfsliði okkar og nota það fé sem þeir í það leggja. Þó að við ætlum að spara einhverja tugi milljóna með því að leggja niður ferskfiskmatið er ég hræddur um að það komi illa í bakseglið ef við höldum þannig á málum og Kanadamenn fá okkar ágætu menn. Það eru sjálfsagt einhverjir tilbúnir að flytja til þeirra og koma þeirra mati í betra horf og þá er hætt við að okkar samkeppnisaðstaða versni enn meira en nú er.