15.12.1986
Neðri deild: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tek mjög undir orð hv. þm. sem hafa talað á undan mér að það er nánast óhæfa að bjóða alþm. upp á svona vinnubrögð. Það er í hæsta máta óhæfa að bjóða þingheimi upp á það í svona stórmáli að leggja það fram fyrir um viku síðan og síðan á að ljúka því af hér í deildinni trúlega í dag. Það er einkennilegt að svona virðist vera með flest mál hjá hæstv. sjútvrh. Menn eru varla búnir að gleyma selamálinu sem alltaf er hér á síðustu dögum þings á vorin. Það mál hafa menn kannske að vísu verið búnir að kynna sér af því það hefur legið svo oft fyrir hv. Alþingi. Þetta mál er með þeim hætti, að því er mér finnst, að það hefði þurft að skoða miklu betur en hefur verið gert.

Nú getur menn að vísu greint á um það hvort eigi að leggja Ríkismat sjávarafurða niður eða ekki. A því geta menn haft skiptar skoðanir. Ég er eigi að síður á þeirri skoðun að því þurfi að gjörbreyta. Þar ekki síður en annars staðar í kerfinu þarf að flytja starfsemina í útibú út á land en ekki hrúga niður hér á Reykjavíkurskrifstofunum þeim mönnum sem við þetta fást og um það eiga að fjalla. Það þarf að setja upp útibú úti á landi á vegum þess aðila, hvort sem hann heitir Ríkismat eða eitthvað annað, sem sér um þessa hluti, til þess að þessir menn séu í nágrenni við staðinn sem þeir eiga að vinna á og ákvarða um.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og tel mig hafa nokkra reynslu í því að framkvæmd matsins hafi verið afskaplega misjöfn milli staða, milli svæða. Hver ástæðan til þess er skal ég ekkert um segja en hún hefur verið afskaplega misjöfn og þeim þáttum þarf að koma í lag. Við hljótum að reyna að vinna að því að sjómenn geti búið við sams konar mat á fiski hvar sem þeir eru á landinu. Ég held að Ríkismatið í þeirri mynd sem það nú er í sé slæm stofnun sem þurfi að breyta og laga. Ég held hins vegar að menn ættu að skoða þær breytingar sem þar þarf að gera öllu betur en á síðustu dögum þingsins, ég tala nú ekki um þegar fjöldi þingmanna getur vart verið við umræður vegna þess að hann er í nefndarstörfum hingað og þangað. Ég geri að vísu ráð fyrir að hv. þm. úr sjútvn. hafi kynnt sér málið rækilega en það eru bara fáir þingmenn sem þannig hafa fengið tækifæri til að fjalla um málið. Ég segi fyrir mig: Það er til allt of mikils ætlast, a.m.k. að því er mig varðar, að taka slíkar ákvarðanir í svona máli á nokkrum dögum án þess að hafa fengið aðstöðu til þess að kynna sér það betur. Ég skil ekki þennan æðibunugang. Hverju breytti það hvort þetta yrði afgreitt í þessari viku eða yrði frestað þar til þing kemur saman aftur? Hverju er tapað við það? Ég held að engu sé tapað. Sá grunur læðist að mér, án þess að ég vilji neitt um það fullyrða, að þær breytingar sem hér er verið að leggja til verði miklu meiri í reynd en þær líta út fyrir á blaði. Ég a.m.k. vildi gjarnan fá að skoða málið út frá fleiri sjónarmiðum en nú hefur verið gert. Ég óttast það að hér séu menn enn einu sinni að ana út í fen sem erfitt verður úr að stíga og það þurfi að nota tímann betur til þess að skoða þetta mál. Ég tala nú ekki um þegar um er að ræða svo viðkvæma ákvörðun eins og er um verðlag á 70% af því útflutningsverðmæti sem við höfum yfir að ráða. Slíka ákvörðun á ekki að taka í skyndingu. Það mál þarf að skoða betur. Ég sé enga ástæðu til þess að þetta mál sé drifið af hér með forgangshraði nánast á síðustu dögum þingsins eins og málið er stórt. - [Fundarhlé.]