15.12.1986
Neðri deild: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það hefði kannske verið skemmtilegra málefnisins vegna að hafa hæstv. sjútvrh. í húsinu, þó ekki væri annað, þegar verið er að nauðga í gegnum þingið nýframlögðu frv.

Ég held að það hljóti að vera samdóma álit allra, sem þessu máli hafa kynnst og komist í snertingu við það, að þetta frv. er afar seint fram komið. Það er ekki þar fyrir að mörg mál fá afar fljótfærnislega afgreiðslu á hinu háa Alþingi og þetta yrði sennilega ekki fyrsta málið sem fengi slíka meðferð, en hvað sem um það má segja er augljóst að það er varla sæmandi að koma með nýtt þingmál þegar rétt vika er eftir af tímanum til jóla, miðað við að ætlast er til að þetta frv. verði að lögum 1. janúar.

Menn hafa talað um þetta frv. með mismunandi áherslum, en þeir sem talað hafa hingað til hafa lagst gegn því á mismunandi forsendum. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson telur þetta ónýtt frv. og vont og eftir ræðu hans að dæma er niðurfellingin á einni málsgr. í einni frvgr. nægileg til að gjöreyðileggja frv. og útkoman verði sú að Ríkismatið verði þar með lagt niður. Til hvers voru menn að setja saman frv. með ærinni fyrirhöfn og raunar miklum fyrirgangi í 27 greinum auk ákvæðis til bráðabirgða ef aðeins 1. málsgr. einnar greinar nægir til þess að sálga því alveg? Auðvitað er þetta misskilningur, en það er sjálfsagt að ræða það. Hitt skal ég viðurkenna strax að brottnám þessarar 1. málsgr. er hálfgert klúður ef ekkert kemur í staðinn. Þetta þurfum við að skoða betur milli umræðna. Það er rétt að hafa alveg skýrt hvað þessir hlutir þýða. Hitt er svo annað mál að þetta mál er út af fyrir sig alls ekki mjög mikilvægt eða stórt og ekkert flókið. Menn eru að tala um flókin lagaatriði. Ósköp geta menn flækt einföld mál fyrir sér. Þetta er alls ekki flókið mál og ekki einu sinni lagaatriði heldur.

Spurningin í þessu máli er ósköp einfaldlega ein: Vilja menn leggja niður ferskfiskmatið eða ekki? Það er spurningin. Þá meta menn að hve miklu gagni það hefur komið og í hverju væri þá misst ef þetta frv. yrði að lögum. Ég tel að þetta sé ekki mjög stór spurning. Ég segi fyrir mig að það hefur farið fé betra. Það er alltaf svo og hefur verið síðan ég kom á þing, og er reyndar nýkominn, aðeins verið hér í tæp 16 ár, að ævinlega þegar einhver lætur sér hugkvæmast að breyta einhverju eru menn spólandi reiðir og ævinlega sömu mennirnir. Þeir vilja bara ekki breyta neinu. Þeir þola ekki breytingar. Þeir eru hræddir við þær. Ég held að þeir sem hafa verið nálægt sjó í nokkra áratugi, eins og ég og raunar fleiri hér, þeir eru að vísu ekki margir, hafi aldrei verið sérlega hrifnir af þessu apparati og er þá ekki miðað við breytingu eins og þessa eða þá sem gerð var 1984 heldur í langan tíma. Satt að segja, þó maður hafi ævinlega litið með velvilja til þessarar stofnunar og þeirrar sem á undan var, þá hafa gallarnir sést best, enda flestir. Ég er jafnframt alveg viss um að það þarf að breyta meiru í sambandi við þessar stofnanir. Það þarf að breyta því áfram. En ég tel að þetta sé skref í áttina.

Ef menn ættu að lýsa því hvernig undirtektir þetta frv. fékk eða þessi hugmynd má byrja á að segja að úti í Vestmannaeyjum, þar sem Landssamband ísl. útvegsmanna hélt sinn aðalfund fyrir nokkrum vikum, voru útvegsmenn sammála, og það eru raunar margir sjómenn sem eru útvegsmenn, um það að það ætti ekki aðeins að leggja niður ferskfiskmatið heldur allt apparatið og snúa lyklinum í skránni og reka liðið heim - leggja sem sagt niður allt ríkismat. Sama sinnis voru fleiri, t.d. fulltrúi Sambands ísl. fiskframleiðenda, SÍF, Gunnar Tómasson, en aðrir vildu ekki ganga svo langt. Hins vegar voru allir aðrir sem komu til okkar í nefndinni, ég tek það fram, þeir sem komu til okkar í nefndinni, allir aðrir, SH, Sambandið og allt þetta batterí sem við höfum ævinlega nærhendis þegar um slíkt er að tefla, allir voru þeir sammála um að þetta mætti fara. Og það er ekki gert í neinu fljótræði. Þessir menn skoða sín mál. Hins vegar er engin ástæða til að sleppa í gegn göllum sem kunna að vera á þessu áður en það verður afgreitt í þessari stofnun.

Það hefur verið talað um að þm. hefðu ekki lögin í höndunum. Auðvitað geta allir sem áhuga hafa farið fram og náð í lögin og haft þau í höndunum. Það eru næstu dyr. Það er engin afsökun. (TG: Það þarf að rata um húsið.) Já, það er rétt. Það er kannske ekki eðlilegt að menn kunni á það allt saman sem rétt koma hér inn og jafnvel ratvísustu menn eiga kannske erfitt með að finna aðganginn að þessum pappírum. En það eru alls ekki margir sem fjalla um þessa hluti eða hugsa um þá.

Þetta frv. er ekki stórt eins og ég nefndi og ég sé ekki ástæðu til að tala um þetta miklu meira. Ég sé alls ekki ástæðu til að fara með þessa umræðu alla leið til Kanada eins og hv. þm. Guðmundur J. gerði, hvað þá heldur til Stórþingsins í Osló eða neitt af því tagi. Það þarf ekki að gera þetta annars staðar en við eldhúsbekkinn. En ég minni á að þegar lögunum var breytt um Ríkismatið 1984 lagði ég fram allmargar brtt., mig minnir að þær hafi verið tólf, við frv. (GJG: Segðu okkur hvernig það gekk fyrir sig.) Það er kannske óþarfi að vera að mála það upp eitthvað, en þannig var að það þurfti að lappa aðeins upp á þetta og ég tók það að mér og samdi nokkrar brtt., ég held að þær hafl verið tólf, en svo óhönduglega fór það þegar átti að fara að skila þessu frá sér í nál. að það gleymdist ein till. Það var einn hv. þm. sem nefndi að Ed. hefði nefnilega breytt frv. líka, en það var aðeins sú till. sem hafði fallið niður í vélritun. (GJG: Var þá komið álit frá sjútvn.?) Ja, raunar hafði verið lagt fram eitthvert nál. sem hafði verið tekið til endurskoðunar, dregið til baka. En það er ekki aðalmálið.

Satt að segja var sú lagagerð ekki nægilega vönduð. Ég er ekkert að kenna einum eða neinum um það. Nefndarmenn áttu auðvitað að sjá til þess að það yrði lagfært, en til þess vannst satt að segja varla tími, enda kom það í ljós að hinum mestu lagaspekingum landsins þóttu greinarnar ekki sérlega fallegar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara út í mörg smáatriði í þessu, en ég vil þó nefna það, þar sem menn eru að tala um hina nýju 13. gr. laganna annars vegar og hina eldri 22. gr. laganna, að þessar greinar eru skyldar en ekki eins. Þess vegna geta þær staðið báðar saman í frv. ef grannt er skoðað og þarf ekki annað en að vekja athygli á þessu svo glöggt er að það er allmikill mismunur á því hvað segir í annarri greininni en hinni.

Herra forseti. Ég hef skrifað upp á þetta frv. þannig að ég mæli með því að það verði samþykkt. Hins vegar tel ég að við ættum að setjast niður og athuga hvort ekki væri hægt að gera þetta svolítið skýrara, þ.e. um niðurfellingu 1. málsgr. 10. gr.