15.12.1986
Neðri deild: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Steingrímur J. Sigfússon:

Ástæðan fyrir því að ég legg leið mína hingað til að taka þátt í umræðum um þetta mál er sú að við hófum tekið þetta til sérstakrar skoðunar í þingflokki Alþb. og þar hafa nokkrir þm. komist að þeirri niðurstöðu að það sé allóvarlega að hlutunum staðið hvað varðar ákvæði 5. gr. frv., þ.e. gildistökuákvæði þessara laga. Því verður tæpast á móti mælt að hæstv. sjútvrh. er með seinustu skipum í höfn hvað varðar það að flytja frv. af þessu tagi um jafnmikilsverðan málaflokk og er gæðaeftirlit með sjávarafurðum á Íslandi og það skuli vera til 2. umr. í fyrri þingdeild þann 15. des. en eiga að taka gildi 1. jan. n.k. Einhverja daga, alla vega þó nokkrar klukkustundir, mun þetta frv. eiga eftir í meðförum þannig að ekki verða dagarnir margir til stefnu til að móta viðbrögðin við frv. áður en það á að taka gildi sem lög á Íslandi.

Það er reyndar nokkuð kostulegt, herra forseti, að lesa athugasemdir við frv. þar sem segir t.d. á fyrstu síðu, með leyfi forseta:

„Í frv. er einungis kveðið á um afnám núverandi skyldumats opinberra aðila á ferskum fiski en ekki ákveðið með hvaða hætti framkvæmd þessara mála skuli háttað hjá viðskiptaaðilum. Liggur það í hlutarins eðli að um það verða þeir að koma sér saman án afskipta hins opinbera.“

Þetta er út af fyrir sig gott og blessað, en það er ljóst að tíminn sem þessir aðilar hafa til stefnu er orðinn harla naumur. Á bls. 3 er enn vikið að þessu og þar segir, með leyfi forseta aftur:

„Fram til gildistöku frv. þessa ætti að gefast nægt svigrúm fyrir hagsmunaaðila til að koma sér saman um nýja skipan þessara mála og væri eðlilegt að þeir hæfu undirbúning nú þegar.“

Ja, það er von að það sé komist að þeirri gáfulegu niðurstöðu að ekki sé seinna vænna fyrir hagsmunaaðila en að hefja undirbúning nú þegar.

Við teljum að hér sé óvarlega að farið, svo ekki sé fastara að orði kveðið, að ætla sér ekki meira en hátíðirnar, rétt hátíðisdagana, til að undirbúa viðbrögð við frv. Nú hafa hagsmunaaðilar að sjálfsögðu eitthvað rætt það, geri ég ráð fyrir, því þar eru forsjálir menn en engu að síður, hafandi í þskj. staðfest að ekki eru á nokkurn hátt af hálfu hins opinbera gefnar vísbendingar um það eða lagðar línur um það hvað taka eigi við, þá er þessi tími ansi naumur. Við höfum því ákveðið að flytja brtt. við 5. gr. um gildistökuákvæði laganna. Verður henni vonandi dreift á borð þm. innan tíðar og ég fer fram á það við virðulegan forseta að hún megi þá koma til umræðu og verði tekin á dagskrá með afbrigðum ef þurfa þykir. Sú brtt. er einföld. Við leggjum til að gildistaka laganna frestist um eitt ár. Það mætti hugsa sér að eitthvað skemmri undirbúningstími dygði, en þó er tæplega raunhæft að okkar viti annað en að ætla sér árið til undirbúnings og að ný skipan þessara mála taki þá gildi að ári.

Herra forseti. Það er ekki smámál á ferðinni þegar rætt er um gæðaeftirlit í aðalútflutningsvegi landsmanna, þeim útflutningsvegi sem skapar ekki minna en 80% útflutningstekna þjóðarinnar. Það er virðingarvert og lofsvert að vera sífellt að leita að hagræðingarmöguleikum í opinberum rekstri, en Ríkismat sjávarafurða er ekki sú byrði á opinberum fjárhag í landinu að það sé réttlætanlegt að fara mjög glannalega þó að menn sjái von í að spara einhverjar krónur í rekstri þeirrar stofnunar vegna þeirra geysilegu hagsmuna sem í húfi eru annars staðar hvað þetta varðar.

Gæðamat í íslenskum sjávarútvegi hefur heldur ekki tekist verr en svo, hvað sem um það má segja að undanförnu, að við seljum okkar vöru yfirleitt á hærra verði en flestar samkeppnisþjóðir eins og kunnugt er og þarf ekki að hafa fleiri orð um. Það þýðir ekki þar með að ekki sé sjálfsagt að vera sífellt að leita að úrbótum og það styðjum við að sjálfsögðu. Flestir þm. Alþb. munu styðja þetta frv., geri ég ráð fyrir, ef þau gildistökuákvæði sem við flytjum till. um ná fram að ganga. Að öðru leyti hafa menn óbundnar hendur um afstöðu til frv.