15.12.1986
Neðri deild: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það hefur verið vikið að því fyrr í dag hversu þetta mál er seint á ferðinni og ekki að ástæðulausu. Ég fer að gruna suma hverja hæstv. ráðherra, það þarf ekkert endilega að beinast að hæstv. sjútvrh. einum og sér, um það að koma með mál inn í þingið á þeim tímum þegar mesta vinnuálagið er á þm., treystandi á að málin fari hér í gegn án þess að nokkur skoði þau. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þetta gerist. Það er nánast orðin venja að ráðherrar haga sér með þessum hætti. En slíka venju ætti að leggja af.

Ég sé, herra forseti, að í nál. hv. sjútvn. segir, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur rætt frv. á fundi sínum og fengið til viðtals fulltrúa frá Sambandi ísl. fiskframleiðenda, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sjávarafurðadeild Sambands ísl. samvinnufélaga, Landssambandi ísl. útvegsmanna og Ríkismati sjávarafurða.“

Finnst mönnum ekkert vanta inn í þessa mynd? Ætli það séu ekki fleiri hagsmunaaðilar sem hefði átt að tala við í þessu tilviki, eins og t.d. sjómannasamtökin, Sjómannasamband Íslands? Er það eðlilegur vinnumáti, ef treysta á gjörðum nefndar eins og hæstv. sjútvrh. leggur til, að fulltrúar sjómannasamtakanna séu ekki kallaðir til? Mér a.m.k. finnst að þeir hefðu átt að vera kallaðir til viðræðna ekki síður en þeir sem hér eru nefndir. Hvernig stóð á því að ekki var rætt við þessa aðila? Hver er ástæðan fyrir slíku? Hér eru væntanlega menn úr hv. nefnd sem gætu svarað því. (GJG: Formaðurinn.) Formaðurinn, hv. þm. Stefán Guðmundsson. Hver er ástæðan fyrir því að sjómenn eru með þessum hætti sniðgengnir? (StG: Ég er búinn að svara því, en ég skal gera það aftur.) Vill hv. þm. ekki svara því núna? (StG: Ég kem upp á eftir.) Þá fáum við vitneskju um það. En ég get á engan hátt skilið hvernig á því stendur að sjómenn eru þarna sniðgengnir. Mér finnst nefnilega oft brenna við að þegar menn eru að tala um hagsmunaaðila í þessum efnum tala menn um fiskkaupendur, frystihúsin fyrst og fremst, en þeir tala sjaldnar um fiskseljendurna, sjómenn sjálfa.

Ég mótmæli enn harðlega þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð. Menn getur greint á um innihald frv., en vinnubrögðin eru þess eðlis að þau eru fordæmanleg. Það er kominn 15. des. og málið er til 2. umr. í fyrri deild, lagt fram fyrir viku. Ég ítreka að hér er ekki um neitt smámál að ræða.

Nú hef ég lýst því yfir áður, og ég hygg að svo sé um marga aðra, trúlega marga hv. þm., að það er ýmislegt við Ríkismat sjávarafurða að athuga. Ég held að stofnunin sem slík sé ekki ýkja traust í sessi í hugum sjómanna. Eigi að síður þarf stofnun af því tagi sem hér er um að ræða að vera til, en það þarf að mínu mati verulegan uppskurð á Ríkismati sjávarafurða, stofnuninni sem slíkri, miklar breytingar. Þar eru tíð mannaskipti frammámanna, líka tíð mannaskipti af hinum aðilanum. Það bitnar allt á stofnuninni, framkvæmd hennar við verkin.

Ég hef grun um að innan þessarar stofnunar hafi verið ráðið æðimikið af mannskap sem ekki hefur þá faglegu þekkingu sem þarf til að inna þessi störf af höndum, fyrir nú utan hitt, sem er alveg út í hött, að það mun vera skylda að þeir sem ráðast til þessarar stofnunar, forsvarsmenn hennar, hafi háskólapróf. Mér finnst ekki að það hafi aukið traust þessarar stofnunar þegar fyrrv. framkvæmdastjóri Framsfl. var ráðinn þar sem frammámaður, án þess að kasta nokkurri rýrð á hann sem einstakling. En keimur er af þessu öllu. (Sjútvrh.: Hvað þá?) Það ætti kannske við hæstv. ráðh. Keimurinn kemur kannske frá hæstv. sjútvrh. ekki síst. (JBH: Án þess að varpa nokkurri rýrð á Framsfl. sem slíkan.) Það sagði ég ekki, hv. þm. Jón Baldvin. En það er nánast verið að tala við eitt af höfðunum á Framsfl. þar sem hæstv. ráðh. er og það segir sína sögu.

Ég held líka að ýmislegt í rekstri Ríkismatsins eins og það hefur verið rekið þurfi verulegs uppskurðar við. Mér skilst að þar sitji menn sveittir við að stimpla vottorð án þess að hafa nokkra hugmynd um hvernig sú vara er sem menn eru að gefa stimpilinn á. Slík vinnubrögð kunna ekki góðri lukku að stýra. Kannske er þetta allt of mikið feimnismál til þess að það megi um það tala hér. En ég held að það sé tími til kominn að menn fari að tala hreint út í þessum efnum. Það er allt of mikið í húfi til þess að fela eða dylja.

Ég sagði fyrr í dag að ég teldi að það þyrfti að breyta þessum málum á þann veg að færa verulegan hluta af skrifstofubákninu héðan út á landsvæðin. Í þessu fyrirtæki eins og allt of mörgum hjá ríkinu er skrifstofuliðinu hrúgað á Reykjavíkursvæðið, nánast öllu. Þetta starfsfólk er ekki í tengslum við þann raunveruleika sem um á að fjalla. Kontóristar eru út af fyrir sig ágætir margir hverjir, en þeir þjóna ekki þeim tilgangi hér í Reykjavík í þessu tilviki eins og þeir eiga að gera.

Mér skilst að það séu starfandi um tíu yfirmatsmenn úti á landi, en mér er sagt að það séu 40 starfandi á þessu svæði hjá skrifstofunni. Hvar á að ná tengslum við hagsmunaaðilana annars staðar en á þeim vettvangi þar sem þeir eru sjálfir? Greinilega mætti telja upp margt fleira svipað því sem hér hefur verið um rætt þó að tæpast sé ástæða til þess nú og trúlega gætu fleiri hv. þm. talað í svipuðum dúr að því er varðar þessa stofnun.

Ég get að því leyti tekið undir orð hv. þm. Garðars Sigurðssonar að það hafi farið fé betra þótt Ríkismatið væri lagt niður. (GSig: Það er nú víst engin hætta á því.) Hv. þm. sagði það áðan. En ég er þeirrar skoðunar að við verðum að breyta starfsháttum innan þessarar stofnunar. Það er ekkert nýtt að heyra nánast daglega mjög deildar meiningar um gæðamat á fiski þar sem fulltrúar þessara aðila eru að meta sjálfir. Það er hægt að fara milli sjávarplássa og fá sitt matið á hvorum staðnum. Þannig hefur þetta gengið um langa hríð. Það er ekki að sjá að það sé neitt samhengi í ákvarðanatöku að því er varðar mat á fiski. Það virðist ekki vera nein samræmd stefna í þeim efnum, ekki a.m.k. í framkvæmd.

Hæstv. sjútvrh. sagði áðan að hér væru menn sem engu vildu breyta. Hvað þýðir þessi breyting? Þýðir hún eitthvað í peningum? Hverju á hún að breyta? Verða settir betri menn á stofnunina? Eða hvað eru menn að gera? Ég hef alltaf verið talsmaður þess að það mætti breyta, en það á ekki að breyta breytinganna vegna. Það er ekki aðalmálið. Ég hygg að hæstv. sjútvrh. sé þetta allt ljóst hvað sem hann kann að viðurkenna upphátt.

En ég legg áherslu á það, herra forseti, og sé raunar enga ástæðu til annars en þetta mál verði ekki keyrt fram kannske á næturfundum. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess. Þetta mál þarf að ræða miklu meira. Menn þurfa að heyra skoðanir fleiri aðila en hér hefur verið um rætt. Það þýðir auðvitað að málið verður að vera lengur í skoðun. Ég sé ekkert sem knýr á um að þetta frv. eigi að taka gildi um næstu áramót.