15.12.1986
Neðri deild: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Ég hlýt í upphafi máls míns, sem ég ætla ekki að hafa langt, að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir vissa ádrepu sem ég hlýt að taka til mín. Ég vænti þess að hann finni það í ræðu sinni, ef hann man það ekki, að hún var ágæt og réttmæt án efa. Í henni fólst að sumu leyti að við þessir jálkar sem erum kallaðir inn þegar henta þykir eigum ekki að hafa skoðun á hlutunum heldur að vera eins og strengjabrúður hér og rétta upp hendi þegar þess er óskað af okkar yfirmönnum. Þetta er einmitt mín skoðun því að ég læt strákana líka hlýða mér á sjónum.

En samt er það svo að alltaf erum við að tala um virðingu Alþingis og þar eigi menn að vinna af viti nokkru og þá kemur það fyrir að maður eins og ég vill leggja höfuðið í bleyti og athuga hvort ég get ekki lagt eitthvað gott til málanna. En það hefur víst ekki hitt í mark í þetta skiptið og verður að hafa það.

Ég geri mér vel ljóst að ég mun ekki stöðva þetta frv., enda var það kannske ekki tilgangur minn þegar ég hélt fyrri ræðu mína heldur aðeins að vekja athygli á því að ég er ekki sáttur við það. Ég veit fyrir fram að þetta er búið að fá afgreiðslu hjá hv. sjútvn. og þess vegna ætti ég ekki að vera með neitt múður út í þá ágætu nefnd. Þegar vitnað er í ágætan lögmann, Sigurð Líndal, er náttúrlega gaman að vita hvort hann hefur sama álit á hv. sjútvn. lagalega séð og alla vega séð, en þegar skipstjóri með 37 ár á bakinu sem skipstjóri og 45 ár á sjó er sagður ekki hafa vit á hlutunum, þá líkar mér ekki.

Málið er ekki flókið, sagði hv. 4. þm. Suðurl. Garðar Sigurðsson. Það má vera að þetta sé ekki flókið mál. Hann er einn af þessum seku í sjútvn. að hafa flaustrað þessu af.

Ég held að ég sleppi umræðu að mestu leyti nema því einu að ég fór með rangt mál í minni fyrri ræðu þegar ég nefndi að Sjómannasamband Íslands hefði samþykkt þetta. Það er ekki rétt. Ég sé að það kemur fram hér að það hafnar þessari hugmynd. Er rétt að það komi fram.

Tilgangur frv. er vissulega góður, að spara, og ég er hlynntur því mjög að menn reyni að finna leiðir til þess. En það vill svo til að á ólukkulegum stað í frv. kemur fram að gert er ráð fyrir að stofnunin starfi áfram að þeim meginmarkmiðum að bæta, með leyfi forseta, „hráefnis- og vörugæði í íslenskum sjávarútvegi. Þessu hlutverki gegnir stofnunin með því að hafa almennt eftirlit með og yfirsýn yfir meðferð á afla frá því að hann kemur um borð í veiðiskip uns fullunnin vara er flutt út.“

Þetta kemur spánskt fyrir sjónir í sparnaðarskyni. Þessir menn hafa aldrei fylgst með fiskinum frá því að hann kemur um borð. Þeir hafa tekið við honum á bryggjunni. Þá fyrst koma þeir að þessu. Þeir gá að vísu í lestarnar til að sjá hvort þær eru hreinar og þakki þeim enginn fyrir það. En mér sýnist á öllu að það eigi að fara að auka við þetta, stækka þetta. Þetta er allur sparnaðurinn. Mér finnst að þetta sé eins og í gamalli vísu. Hún er í stuðlum og þess vegna illa með farandi:

Eitt rekur sig á annars horn,

eins og graðpening hendir vorn.

Þetta er brot úr vísunni. Ég held að sparnaðurinn sé mjög hæpinn í þessu sambandi.

En mál mitt skal ekki verða lengra. Ég geri mér ljóst að þetta mál er komið í gegn, en ég get ekki verið sammála því og ef það ríður bara á mínu atkvæði mun ég í lægsta falli sitja hjá.