15.12.1986
Efri deild: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

116. mál, verkfall félagsmanna í Skipstjórafélagi Íslands

Frsm. meiri hl. samgn. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um stöðvun verkfalls félagsmanna í Skipstjórafélagi Íslands svo og félagsmanna í Sjómannafélagi Reykjavíkur sem vinna á farskipum.

Ég vísa til þess, sem ég sagði áðan, að við fyrri umræðu í deildinni skýrði samgrh. tilurð þessa lagafrv. Nefndin hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. hennar, sem skráður er undir þskj., mælir með því að frv. verði samþykkt.

Það er óvenjulegt að samgn. klofni svona í hverju málinu á fætur öðru, ég held að þetta sé í þriðja sinn sem sú nefnd hefur ekki skilað sameiginlegu áliti síðustu árin, en ég get fullvissað deildina um að hér er ekki um varanlegan klofning nefndarinnar að ræða.