15.12.1986
Efri deild: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

211. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Um alllangan tíma hafa opinberir starfsmenn haft þá meginstefnu að óska eftir að samningsréttur og verkfallsréttur yrði á höndum einstakra aðildarfélaga. Í kjarasamningum fyrr á þessu ári var því lýst yfir af hálfu fjmrn. að það væri fyrir sitt leyti reiðubúið til viðræðna um breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna til að gera þær grundvallarbreytingar að samningsréttur og verkfallsréttur flyttist til einstakra aðildarfélaga með ákveðnum takmörkunum sem þar var lýst. Um þetta náðist ekki samkomulag á þeim tíma, en aðilar urðu sammála um að halda umræðum áfram í sérstökum nefndum.

Með samkomulagi sem gert var 24. nóvember s.l. milli fjmrn. annars vegar, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, launamálaráðs starfsmanna innan BHM og Bandalags kennarafélaga hins vegar varð samkomulag um stuðning við meginbreytingar á gildandi lögum.

Í fyrsta lagi var þar lögð áhersla á að ein lög skyldu gilda um kjarasamninga opinberra starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum og stofnunum þeirra.

Í öðru lagi að þau félög sem nú hafa sérkjarasamninga við ríki og sveitarfélög á grundvelli gildandi laga fái fullan samningsrétt og verkfallsrétt og önnur stéttarfélög fái þann rétt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Í þriðja lagi að undanþágur frá verkfalli verði skýrt markaðar í lögum og kjaradeilunefnd verði lögð niður. Aðilar lýstu því jafnframt yfir að þeir hefðu náð samkomulagi um sérstakan stefnumarkandi lista að því er varðar undanþágur í verkfalli.

Á grundvelli þessa samkomulags var þetta frv. lagt fram. Í því felast grundvallarbreytingar á samningsréttarmálum opinberra starfsmanna. Í núgildandi lögum er umboð til að gera samninga annars vegar bundið við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og hins vegar við þau heildarsamtök sem fjmrh. veitir viðurkenningu skv. lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Umboð til að gera aðalkjarasamning er með þessum hætti takmarkað við fáa aðila og umboð til þess að gera sérkjarasamninga er í höndum þeirra félaga sem eru aðilar að þessum heildarsamtökum. Í fyrirliggjandi frv. er umboð til samningsgerðar ekki bundið með þessum hætti en gert ráð fyrir að hvert stéttarfélag starfsmanna ríkisins eða sveitarfélaga sem uppfyllir tiltekin almenn skilyrði geti orðið samningsaðili óháð því hvort það er innan heildarsamtaka eða ekki. Gildandi lög eru fyrst og fremst miðuð við ríkið og starfsmenn þess, en um samninga starfsmanna sveitarfélaga hafa gilt ákvæði reglugerðar sem sett voru með gildandi lögum. Ákvæði í fyrirliggjandi frv. eru miðuð við að þau geti tekið til sveitarfélaga og starfsmanna þeirra með sama hætti og til starfsmanna ríkisins og ríkisins sjálfs. Heimild til verkfalls er skv. gildandi lögum nær einungis bundin við BSRB, en færi skv. frv. til einstakra stéttarfélaga. Takmarkanir á verkfalli og aðdragandi þess er á ýmsan hátt hliðstæður því sem nú gildir um Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, en þó frábrugðið að því er þátt sáttasemjara og sáttatillögu varðar við boðun verkfalls, með hvaða hætti undanþágur frá verkfalli eru ákveðnar.

Skv. núgildandi lögum ber sáttasemjara að leggja fram sáttatillögu ef verkfall er boðað. Allsherjaratkvæðagreiðsla fer fram um tillöguna og ráða úrslit hennar því hvort til verkfalls kemur eða ekki. Í frv. er ekki gert ráð fyrir skyldu sáttasemjara til að leggja fram sáttatillögu. Um aðild hans að kjaradeilum mun því fara eftir lögum nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum. Í gildandi lögum hefur sérstök nefnd, kjaradeilunefnd, það hlutverk að ákveða hverjir skuli vinna þrátt fyrir verkfall í þeim tilgangi að tryggð sé nauðsynleg öryggis- og heilsugæsla. Fyrirkomulag þetta og starfsemi kjaradeilunefndar var hart gagnrýnt í síðasta verkfalli. Í stað þessa fyrirkomulags gerir frv. ráð fyrir því að annars vegar verði birtur tæmandi listi yfir þau störf sem undanþegin eru verkfalli og hins vegar að undanþágur verði veittar til að firra neyðarástandi. Slíkar undanþágur yrðu háðar samþykki tveggja fulltrúa sem deiluaðilar skipa.

Í þeim lögum sem um Bandalag háskólamanna og Bandalag kennarafélaga gilda er hlutverk sáttasemjara að koma á viðræðum milli aðila og kanna möguleika á samkomulagi. Takist það ekki innan tiltekinna tímamarka er málinu vísað til Kjaradóms. Ákvæði þessi falla nú niður og þar með hlutverk Kjaradóms í kjaradeilum stéttarfélaga opinberra starfsmanna. Það er því augljóst að með þessu frv. eru mörkuð þáttaskil í samningsréttarmálum opinberra starfsmanna.

Í meginatriðum er samningsréttur og verkfallsréttur færður út til einstakra félaga. Með frv. er jafnframt eytt ágreiningi um undanþágur frá verkfalli. Þar er skýrt kveðið á um það hvaða opinberir starfsmenn hafa ekki verkfallsrétt. Með lögunum er jafnframt tryggt að löggæsla og æðsta stjórnsýsla ríkisins, stjórnarráðið sjálft, geta starfað óhindrað þó að verkfallsátök fari að öðru leyti fram á vegum opinberra starfsmanna.

Hvort tveggja þetta tryggir meira öryggi í stjórnsýslunni og færir um leið opinberum starfsmönnum aukin réttindi. Ég er þess fullviss að hér er um verulega réttarbót að ræða fyrir opinbera starfsmenn. Þessi nýja löggjöf mun að því leyti marka samningamálum opinberra starfsmanna nýjan farveg.

Með því samkomulagi sem gert var í lok nóvembermánaðar s.l. milli fjmrn. og heildarsamtaka opinberra starfsmanna um meginatriði þessa frv. var því lýst yfir af minni hálfu að ég mundi beita mér fyrir því að löggjöfin yrði lögð fram á Alþingi og þess freistað að fá hana samþykkta á þessu ári þannig að opinberir starfsmenn og félög þeirra gætu í byrjun næsta árs, þegar kjarasamningar eru lausir, hafið samninga á grundvelli nýrrar löggjafar.

Þegar málið kom til meðferðar í hv. Nd. tókst góð samstaða um skjótan framgang þess. Ég vænti þess að svo muni einnig verða í hv. Ed. og legg til, frú forseti, að málinu verði vísað að lokinni þessari umræðu til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.