15.12.1986
Efri deild: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

258. mál, norræn fjárfestingarlán

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ábyrgð vegna norrænna fjárfestingarlána. Með þessu frv. er ríkisstjórninni fyrir hönd ríkissjóðs heimilað að ábyrgjast hluta Íslands, allt að fjárhæð 5 millj. 350 þús. SDR (sérstök dráttarréttindi) gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum vegna fjárfestingarlána og fjárfestingarábyrgða sem bankinn veitir vegna verkefna utan Norðurlanda.

Vegna aukinna umsvifa Norræna fjárfestingarbankans, sem Ísland er aðili að og veitt hefur íslenskum aðilum margháttuð fjárfestingarlán, samþykkti ráðherranefnd Norðurlanda í maí s.l. að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum bankans þannig að bankinn geti haldið áfram að veita með eðlilegum hætti fjárfestingarlán og fjárfestingarábyrgðir til norrænna verkefna utan Norðurlanda. Af þessu leiðir að ábyrgð einstakra aðildarríkja bankans u.þ.b. tvöfaldast, m.a. ábyrgð Íslands er verður 5 millj. 350 þús. SDR (sérstök dráttarréttindi) eða röskar 260 millj. ísl. kr. Að öðru leyti en því er snertir ábyrgðarupphæðina eru lögin efnislega samhljóða lögum nr. 77 frá 1982, um sama efni.

Á grundvelli samþykkis Alþingis verður nýr ábyrgðarsamningur undirritaður og að því er stefnt að hann taki gildi 1. jan. 1987 og önnur stjórnvöld á Norðurlöndum stefna að sama gildistökudegi. Því er mikilvægt að mál þetta geti fengið skjóta afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.