15.12.1986
Neðri deild: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 327 frá meiri hl. fjh.- og viðskn.

Nefndin hefur athugað málið á fundum sínum. Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins.

Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj. Við gerð frv., sem er á þskj. 168, var sem kunnugt er reiknað með að tekjubreytingin á milli áranna 1985 og 1986 yrði um það bil 31%. Á sama hátt var reiknað með að hækkun tekna milli áranna 1986 og 1987 yrði 15%.

Síðan frv. kom til nefndarinnar hefur Þjóðhagsstofnun endurskoðað þessar áætlanir og hinn 12. des. lét stofnunin frá sér fara eftirfarandi frétt um endurskoðun þjóðhagsspár 1986 og horfur 1987:

„Áætlanir um helstu þjóðhagsstærðir á árinu 1986 og spár fyrir árið 1987 eru nú í endurskoðun, m.a. í ljósi fyrri upplýsinga um framvinduna á þessu ári og nýgerðra kjarasamninga. Hér á eftir eru raktar helstu niðurstöður eins og þær eru nú metnar“, segir þar.

Varðandi framvinduna 1986 segir:

„Útflutningur, einkum á fiski, hefur verið afar mikill á þessu ári. Hér leggst allt á sömu sveif, landburður af afla, hátt afurðaverð og hagkvæm ráðstöfun aflans. Auk þess hefur gengið mjög á birgðir, sérstaklega nú síðustu mánuði. Þótt almennur innflutningur hafi einnig farið vaxandi að undanförnu virðist líklegt að halli á viðskiptum við útlönd verði mun minni en spáð var og gæti jafnvel horfið með öllu. Það yrði í fyrsta sinn síðan 1978 sem það gerðist.

Hagvöxtur á mælikvarða landsframleiðslu verður því meiri en áður var búist við eða um 6% í stað 5%. Jafnframt virðast horfur á að viðskiptakjör batni meira en áætlað var, ekki síst vegna mikillar hækkunar fiskverðs að undanförnu. Þjóðartekjur gætu því aukist um meira en 8% á árinu. Þetta er meiri hagvöxtur en í nokkru öðru vestrænu iðnríki á þessu ári.

Launabreytingar á árinu hafa orðið meiri en reiknað var með fyrr í haust. Þannig er nú búist við um 35% meðalhækkun atvinnutekna á mann milli 1985 og 1986 í stað 31 % áður. Á sama tíma er áætlað að kauptaxtar hækki um 25%. Munurinn skýrist fyrst og fremst af óvenjumiklu launaskriði.

Verðbólga verður minni en um langt árabil. Þannig hækkar framfærsluvísitalan um 21 % að meðaltali milli áranna 1985 og 1986. Á hinn bóginn er hækkunin mun minni frá upphafi til loka þessa árs eða rétt um 12%. Þetta er rúmlega 3% meira en Þjóðhagsstofnun spáði í febrúarlok s.l., en það má fyrst og fremst rekja til meiri hækkunar innflutningsverðs en þá var reiknað með.

Kaupmáttur launa eykst samkvæmt þessu verulega á árinu. Á mælikvarða kauptaxta gæti kaupmáttur aukist allt að 11% frá upphafi til loka árs og kaupmáttur atvinnutekna enn meira. Meðalhækkun milli áranna 1985 og 1986 er rúmlega 3% í kauptöxtum en yfir 11% á mælikvarða atvinnutekna á mann. Samkvæmt þessu hefur kaupmáttur tekna heimilanna aukist um 20% á síðustu tveimur árum.“

Hvað varðar horfurnar 1987 segir Þjóðhagsstofnun, með leyfi forseta:

„Kjarasamningarnir, sem gerðir voru nú í desemberbyrjun, breyta nokkuð horfum hér innanlands á næsta ári. Þótt ekki liggi fyrir endanlegt mat á áhrifum samninganna er rétt að benda á nokkur atriði sem varða efnahagshorfur fram undan.

Ef aðrir kjarasamningar verða á svipuðum nótum má ætla að kauptaxtar geti að meðaltali hækkað um 16% milli áranna 1986 og 1987 og, að viðbættum áhrifum launaskriðs, fastlaunasamninga o.fl., virðist mega reikna með a.m.k. 20% meðalhækkun atvinnutekna á mann á sama tímabili.

Verðbólga á mælikvarða framfærsluvísitölu gæti á þessum forsendum hækkað um 7-8% frá upphafi til loka næsta árs, en meðalhækkun milli áranna 1986 og 1987 yrði meiri, eða rúmlega 11%.

Kaupmáttur tekna heimilanna yrði því meiri á næsta ári en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar s.l. haust. Þannig má ætla að kaupmáttur kauptaxta geti aukist um 4% að meðaltali milli áranna 1986 og 1987 en kaupmáttur atvinnutekna um 7-8% og hefði þá aukist um 30% frá árinu 1984.

Þjóðarútgjöld gætu samkvæmt þessu aukist um 4% á næsta ári, í stað 2% á forsendum þjóðhagsáætlunar. Þetta kæmi einkum fram í auknum neysluútgjöldum heimilanna, en einnig að nokkru í fjárfestingarútgjöldum.

Viðskiptajöfnuður við útlönd yrði þess vegna óhagstæðari á næsta ári en spáð er fyrir þetta ár. Aftur á móti virðist að svo stöddu ekki ástæða til að ætla að viðskiptahallinn verði meiri en gert er ráð fyrir í þjóðhagsáætlun þar sem útkoman á þessu ári verður fyrirsjáanlega mun hagstæðari en þar var búist við. Ekki má þó mikið út af bregða til þess að þetta snúist til verri vegar.

Hagvöxtur á næsta ári gæti samkvæmt þessu orðið um 4%, í stað rúmlega 2% í þjóðhagsáætlun. Jafnframt virðist mega gera ráð fyrir nokkrum viðskiptakjarabata þannig að þjóðartekjur gætu aukist heldur meira eða um 5%.

Þótt hér hafi verið dregin upp björt mynd af ástandi og horfum í efnahagsmálum hér á landi er rétt að vekja athygli á því að töluverð óvissa ríkir um framvindu næstu mánuði. Fyrst og fremst má nefna mikla og vaxandi þenslu hér innanlands að undanförnu. Þetta kemur fram í mikilli fólkseklu, launaskriði og vaxandi innflutningseftirspurn. Þessar aðstæður gætu teflt verðlagshorfum á næsta ári í tvísýnu. Jafnframt er hætt við að meiri launahækkanir en nýgerðir kjarasamningar gera ráð fyrir leiði til aukinnar verðbólgu og vaxandi viðskiptahalla.

Það er brýnt að nýta hin einstaklega hagstæðu skilyrði í þjóðarbúskapnum um þessar mundir til þess að varðveita og styrkja enn frekar þann árangur sem náðst hefur á flestum sviðum efnahagsmála á þessu ári. Betra jafnvægi í opinberum fjármálum og peningamálum er forsenda þess að þetta takist.“

Þetta var, herra forseti, fréttatilkynning Þjóðhagsstofnunar. Samkvæmt ofangreindum áætlunum Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að tekjur einstaklinga hækki um 34-35% milli áranna 1985 og 1986 eða um 3-4% meira en miðað var við við gerð frv. Þá er talið að nýgerðir kjarasamningar leiði til þess að launahækkanir á milli áranna 1986 og 1987 verði ekki undir 18-19% sem er einnig um 3-4% meira en áður var áætlað.

Hækkun skattstofnsins um 3% umfram það sem frv. gerir ráð fyrir mun samkvæmt því álagningarkerfi sem það felur í sér leiða til þess að tekjur ríkissjóðs verði 565 millj. kr. meiri en ráð var fyrir gert.

Sé stefnt að sömu greiðslubyrði og frv. gerði ráð fyrir ætti tekjuskattur í ljósi hinna breyttu forsendna að hækka um 107 millj. kr. frá því sem áður var reiknað með. Til þess að ná þessu markmiði er af framangreindum ástæðum nauðsynlegt að gera tillögur um nokkrar breytingar á frv.

Þar sem áætluð hækkun skattstofnsins milli álagningarára og hækkun mllli greiðsluára er nær hin sama, þ.e. um 3%, má ná því sem næst sömu áhrifum og gert var ráð fyrir í frv. með því að beita á það skattvísitölunni 103. Með þeirri aðferð er áætlað að skattar mundu hækka um 106 millj. kr. frá áætlun frv. og yrði skattbyrðin því óbreytt að teknu tilliti til tekjubreytinga frá því sem áætlað var.

Að auki leggur meiri hl. nefndarinnar til að heimild til tillags í varasjóð verði framlengd um eitt ár til viðbótar.

Í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 8 frá 1984, sem fjalla um frádrátt tillaga í fjárfestingarsjóði, er kveðið á um að ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt varðandi tillög í varasjóð skuli við álagningu á árinu 1984 og 1985 halda gildi sínu. Heimild þessari var ætlað að skapa lögaðilum eins konar aðlögunartíma að hinni breyttu skipan. Samkvæmt þessu gátu framteljendur valið á árunum 1984 og 1985 hvort þeir nýttu sér að leggja 25% af hreinum skattskyldum tekjum í varasjóð eða leggja 40% af sömu fjárhæð í fjárfestingarsjóð. Heimild þessi var síðan framlengd um eitt ár með lögum nr. 18 frá 1985. Þarfir fyrirtækja eru nokkuð mismunandi í þessu efni. Mörg hafa t.d. ekki þörf fyrir að ráðast í nýfjárfestingu heldur þurfa mun frekar að nýta núverandi fjárfestingu betur og treysta frekar rekstrarfjárstöðu sína. Við slíkar aðstæður verkar varasjóðsheimildin mun betur en fjárfestingarsjóðsheimildin. Af þessum sökum er því lagt til að framlengja heimild þessa um eitt ár til viðbótar.

Að þessu nál. standa auk mín Friðrik Sophusson, Halldór Blöndal, Guðmundur Bjarnason og Ólafur G. Einarsson.

Á þskj. 328 fylgja þær brtt. sem við leggjum til og er það uppreikningur frá frv. til þess að ná sömu markmiðum og í frv. fólust. Minni hlutarnir hafa skilað sérálitum og koma til með að gera grein fyrir þeim. Læt ég þá máli mínu lokið.