15.12.1986
Neðri deild: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1773 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti 2. minni hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt og jafnframt fyrir brtt. sem ég flyt á þskj. 342 og fjalla einkum og sér í lagi um frádráttarliði fyrirtækja.

Þetta frv. hefur verið til meðferðar í nefndinni nú um skeið. Forsendur þess hafa stöðugt verið að breytast og það hefur verið sullað fram og aftur með milljónirnar, milljónatugina og milljónahundruðin. Það er ekki fyrr búið að hækka tekjuspána milli áranna 1986 og 1987 upp í 18,5% úr 15 en ný spá berst um góðærið sem sýnir tekjuhækkun á milli áranna upp á 20%.

Mér þætti satt að segja ekkert óviðeigandi, virðulegi forseti, að hæstv. fjmrh. væri í salnum þegar verið er að tala um svona mál. Mér skilst að hann flytji þetta mál og sé ábyrgur fyrir ríkissjóði þannig að ég legg til við forsetann að umræðunni verði frestað ef fjmrh. getur ekki verið hér í salnum. Það má taka þetta fyrir aftur á miðvikudaginn. (PP: Fjmrh. er í hliðarsal.) Hann hefur hér stól enn þá hvað sem verður eftir kosningarnar. Hann getur vel setið hér inni þegar verið er að ræða þessi mál nema hann hafi farið á Kúbukvöld. Það er auðvitað algert lágmark að ráðherrar, sem eru að reyna að troða málum hér í gegn um hánótt, séu mættir hér þegar verið er að tala við þá. Hann hefur sennilega verið sofnaður í hliðarherberginu. Það tekst ekki að ræsa hann enn.

Hér er verið að ræða um einn af stærstu tekjustofnum ríkisins, tekju- og eignarskatt, og mér finnst sanngjörn krafa að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur umræður í þingsalnum vegna þess að hér er m.a. um það að ræða að fluttar hafa verið brtt. sem er óhjákvæmilegt að gera grein fyrir og gera m.a. fjmrh. grein fyrir. Hér er um að ræða brtt. sem sumar hverjar gætu þýtt stórkostlega fjármuni fyrir ríkissjóð, nýjar tekjur upp á hundruð milljóna kr. Þegar hallinn á ríkissjóði er með þeim hætti sem við blasir er ekki óeðlilegt að ætlast til þess af fjmrh. að hann leggi við hlustir. Hann er a.m.k. sá maður sem hefur þær skyldur frekar en flestir aðrir að hugsa um velferð ríkissjóðs þó að það sé kannske ekki beint í samræmi við hugsjónir Sjálfstfl., en samkvæmt þeim hugsjónum á ríkissjóður að vera lítill og klénn og hafa litlar millifærslur. Samkvæmt hugsjónum Sjálfstfl. ætti helst enginn ríkissjóður að vera og allt hjá einkaaðilum. Það er nú komið svo að formaður Sjálfstfl. er orðinn fjmrh. og aðalgæslumaður ríkissjóðs nr. eitt, tvö og þrjú, ríkisforstjóri nr. eitt í þessu landi. (GJG: Vill hann ekki hafa ríkissjóð hf.?) Það er hugsanlegt að hann gæti gert tilraunir til þess einn góðan veðurdag, miðað við það ofstæki sem tröllríður íhaldinu núna, að selja ríkissjóð. Ég efast um að nokkur maður byði í hann, a.m.k. eins og hann er rekinn núna. Það er örugglega lágt verð á þeim hlutabréfum. Það er ég sannfærður um.

Á þskj. 344 birtist nál. mitt um þetta frv. og ég ætla að fara yfir það. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. flytur nokkrar brtt. við skattafrv. á þskj. 342. Efni brtt. er sem hér segir:

Að draga verulega úr frádráttarheimildum fyrirtækja með því að fella niður í áföngum heimildir þeirra til þess að draga frá skatti 5% af matsverði vörubirgða, en samkvæmt gildandi skattalögum er fyrirtækjum heimilt að draga frá matsverði vörubirgða í árslok 5% áður en tekjur eru fundnar. Hér er auðvitað um að ræða gífurlegar upphæðir. Það liggur þó ekki fyrir, ekki í fjmrn., ekki hjá Þjóðhagsstofnun, ekki hjá ríkisskattstjóra, hvaða upphæðir þetta eru. Það er svo sérkennilegt að þó að hægt sé að rekja alveg nákvæmlega hvað menn borga í kirkjugarðsgjöld eftir kjördæmum er útilokað að finna út hvað fyrirtækin draga frá af svona stórum og þýðingarmiklum liðum eins og þessum. Ég geri hér ráð fyrir því í brtt. 2b á þskj. 342 að þessi heimild fyrirtækjanna verði felld niður í áföngum á fimm árum. Brtt. er orðuð á þessa leið:

„Tap á útistandandi viðskiptaskuldum á því tekjuári sem skuld er sannanlega töpuð“. Ég geri sem sagt ráð fyrir því að það megi draga frá þær skuldir sem sannanlega tapast. Auðvitað er það eðlilegt. En síðan segir hér: „Útistandandi viðskiptaskuldir er heimilt að færa niður um allt að 4% á árinu 1987, um allt að 3% á árinu 1988, um allt að 2% á árinu 1989 og um allt að 1% á árinu 1990, en þá falli heimildir skv. þessari málsgr. niður.

Hér er sem sagt ekki verið að ganga fram með neinni ósanngirni gagnvart fyrirtækjunum. Hér er gert ráð fyrir því að þessi heimild verði afnumin í áföngum á fjórum eða fimm árum. En ég er sannfærður um að þegar þessi heimild yrði að fullu fallin niður er hér um að ræða skatttekjuauka fyrir ríkissjóð upp á verulega fjármuni. Ég get ekki frekar en nokkur annar maður giskað á það nákvæmlega hvað það er mikið, en þarna er um að ræða upphæðir sem vafalaust eru ekki minni en 100 millj. kr. og sennilega ekki meiri en 250-300 millj. Enginn getur í raun og veru slegið því föstu hvaða upphæð er hér á ferðinni, en hún er verulega stór.

Þá geri ég ráð fyrir því, og hið sama á auðvitað við um niðurfellingu þeirrar heimildar, að færa niður matsverð vörubirgða, en þar segi ég í þessari tillögu:

„Matsverð vörubirgða í lok reikningsárs er heimilt að færa niður um allt að 8% 1987, 6% 1988, 4% 1989 og 2% 1990, en þaðan í frá fellur þessi heimild niður. Þá upphæð sem fæst skv. fyrri málslið má draga frá skattskyldum tekjum.“

Ég hygg að samanlagt geri þessir liðir, miðað við veltu fyrirtækja á árinu 1986, ekki minna en 400-500 millj. kr. Ég óskaði eftir því við hæstv. fjmrh. fyrir nokkrum dögum þegar þetta mál var hér til meðferðar að aflað yrði upplýsinga um þessa frádráttarliði fyrirtækjanna og í hv. fjh.- og viðskn. óskaði ég eftir því að hún færi þess formlega á leit við fjmrn. og ríkisskattstjóra að upplýsinga yrði aflað um þessa frádráttarliði. Það er í raun og veru ekki nema sanngjörn ósk að mínu mati að bera slíkt fram og ég held að það hljóti að vera keppikefli fyrir fjmrn. að fá þær upplýsingar sem hér er óskað eftir og það er hægt að gera það. Það verður að vísu að handvinna þær upplýsingar allar vegna þess að þær eru ekki á tölvutæku formi eins og frádráttarliðir einstaklinganna eru, en með því að taka eitthvert ákveðið úrtak, segjum 100-200 fyrirtæki, má vafalaust komast nálægt því hversu háar upphæðir hér eru á ferðinni. Ég vil við þessa umræðu ítreka þær óskir mínar, sem ég hef borið fram til fjmrh., að þessar upplýsingar verði af hendi reiddar þó ekki væri nema vegna þess að menn síðar, þegar þeir fara að fjalla um skattalög, hafi glöggar upplýsingar í þessum efnum í höndum.

Í þriðja lagi geri ég ráð fyrir að heimildin til að draga frá skatti framlög í fjárfestingarsjóð verði felld niður. Það er engin ástæða til þess að hvetja sérstaklega til aukinnar fjárfestingar hér á landi. Það er engin efnahagsleg nauðsyn sem kallar á það. Ég held að þessi frádráttarliður sé þess vegna efnahagslega óþarfur, óeðlilegur og því flyt ég till. um að hann verði felldur niður. Tillögur mínar gera líka ráð fyrir því að þeir kaflar í skattalögunum sem fjalla um fjárfestingarsjóðina falli alveg niður. Mér er tjáð að þessi niðurfelling á framlögum í fjárfestingarsjóði geti þýtt í tekjuauka fyrir ríkissjóð 300-400 millj. kr. á ári.

Þá geri ég ráð fyrir að tekin verði um það ákvörðun að lengja fyrningartíma lausafjármuna og fasteigna, sem fyrirtæki eru með í rekstri sínum, upp í það sem var áður en núverandi ríkisstjórn breytti skattalögunum og stytti fyrningartíma og hækkaði þannig afskriftafrádrátt fyrirtækjanna. Það er eins með þetta og annað í frádráttarliðum fyrirtækjanna. Það er útilokað að fá neinar upplýsingar um hvað þessir fyrningarþættir þýða í smáatriðum, en það mætti fá um það grófar upplýsingar með því að taka úrtak úr fyrirtækjum í landinu, 100-200 fyrirtæki, og athuga hversu miklum fjármunum fyrningin nemur, en ég er sannfærður um að það er stórfé.

Allir þessir liðir, sem ég hef hér nefnt, eru tillögur um að hlutur fyrirtækjanna í rekstri ríkissjóðs hækki frá því sem nú er. Nú kunna menn að halda því fram að þessar tillögur séu sérstaklega fjandsamlegar fyrirtækjunum og rétt einu sinni komi það nú á daginn, segi þeir, að Alþb. hafi engan skilning á því að fyrirtækin þurfi að dafna, fyrirtækin þurfi að geta greitt laun, fyrirtækin þurfi að geta endurnýjað sig. En þannig háttar til í því mikla landi Bandaríkjunum að fyrirtækin borga milli 7 og 8% af rekstrarkostnaði ríkisins þar, en hér á landi er talan niðri undir 2%. Hér eru ekki uppi af hálfu Albþ. hugmyndir um að hækka hlutfall fyrirtækjanna í rekstri ríkissjóðs einu sinni upp í það sem er í Bandaríkjunum hvað þá heldur meir. Hér er eingöngu verið að fara fram á að skattakerfið verði einfaldað og að fyrirtækin greiði sanngjarnan hlut í samneyslunni sem þau gera ekki núna.

Í fjórða lagi geri ég hér tillögu um að tekið verði á persónulegri eyðslu forráðamanna fyrirtækja sem þeir færa á fyrirtækin í stórum stíl. Fyrirtæki sem rekur vídeóleigu eða eitthvað því um líkt færir á frádrátt rekstrarkostnað af stórum Range Roverjeppum. Það er talað um að ýmis fyrirtæki færi á rekstrarkostnað sinn rekstur einkaflugvélar. Það er talað um að á kostnað fyrirtækja og lítilla skrifstofa færist utanferðir eigenda og forráðamanna fyrirtækjanna í stórum stíl. Þetta eru atriði sem þarf og er mjög brýnt að taka á hér á landi. Ég hygg að þetta sé ein ástæðan til þess að það er þessi óskaplegi strekkingur í að stofna fyrirtæki um svo að segja ekki neitt eða sjálfan sig. Nú eru komnar fram tillögur um það hér í þinginu að menn geti stofnað hlutafélag þó að þeir séu bara tveir. Þetta hefur verið notað sem lögleg skattsvikaleið og skattsvindlsleið hérlendis. Þess vegna er það sem ég geri ráð fyrir að breyta 52. gr. skattalaganna. Í gildandi lögum er í 52. gr. kveðið á um hvað það er sem ekki má draga frá í rekstri fyrirtækjanna. Það sem ég legg til að bætist við þá grein er þetta, með leyfi forseta:

„4. Persónulega eyðslu forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna er óheimilt að telja til rekstrarkostnaðar. Skal ríkisskattstjóri gefa út árlega reglur um takmörk skv. þessum tölulið.

5. Risnu má ekki telja til rekstrarkostnaðar nema hún sé sannanlega í þágu fyrirtækisins. Ríkisskattstjóri setur reglur um risnukostnað fyrirtækja eftir stærð þeirra og veltu með hliðsjón af markaðsstöðu fyrirtækjanna. Við ákvörðun sína skal ríkisskattstjóri sérstaklega gæta þess að persónuleg eyðsla forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna þess færist aldrei á kostnað fyrirtækisins.“

Ég er sannfærður um að ef það tækist að skilja betur á milli persónulegrar eyðslu forráðamanna fyrirtækja og fjárhags fyrirtækjanna sjálfra væri unnt að skapa meiri samstöðu um skattakerfið hér en nú er. Fólk horfir upp á að menn sem reka alls konar smá og stór fyrirtæki borga hverfandi tekjuskatt, sama og engan tekjuskatt eða ekkert útsvar, en lifa bersýnilega í vellystingum praktuglega vegna þess að þeir færa eyðsluna og lúxusinn á fyrirtækin sjálf. Það segir sína sögu að í landinu eru skráð 22-23 þús. fyrirtæki sem telja fram með sjálfstæðum hætti. Eigendur fyrirtækjanna telja fram á sig og sína og það er erfitt að koma við nokkru eftirliti. Þess vegna er óhjákvæmilegt að mínu mati að breyta skattalögunum þannig að þarna verði reistar skorður við og að ríkisskattstjóri hafi mjög rúmar heimildir í þessum efnum.

Ég er sannfærður um að þessar tillögur, sem ég er hér með varðandi fyrirtækin, þýða tekjuauka fyrir ríkissjóð ríflega á móti þeim tillögum sem ég geri um tekjuskattslækkun einstaklinga. Í þessum tillögum mínum geri ég ráð fyrir að persónuafsláttur hækki í 64 þús. kr. á einstakling úr þeim 58 þús. kr. sem eru í tillögum ríkisstjórnarinnar. Kostnaðurinn við þetta fyrir ríkið nemur um 500 millj. kr. auk 214 millj. í afslátt sem fer upp í útvarsgreiðslur og aðrar skyldar greiðslur.

Þegar ég geri þetta dæmi upp á þskj. 344, þar sem ég fer mjög nákvæmlega yfir þetta skattadæmi, tek ég með í reikninginn að ég styð tillögur Kvennalistans um breytingar á barnabótum og barnabótaauka, en þær tillögur kosta samkvæmt þeim útreikningum sem ég hef í höndum 476 millj. kr. Útkoman verður sú að ef þessir peningar eru sóttir til fyrirtækjanna með þeim hætti sem ég geri tillögu um er hægt að lækka tekjuskatta einstaklinga um þriðjung frá því sem er í dag. Ég held að meðan við erum með skattakerfi sem er jafnlélegt og raun ber vitni um, jafngalopið og rústað á mörgum sviðum eigi beinlínis að gera ráðstafanir til að lækka verulega tekjuskatta einstaklinga og stíga þar stór skref.

Ég er jöfnunarsinni að því er lífskjör og skatta varðar. Ég vildi gjarnan hafa hérna skattakerfi sem væri þannig að það væri hægt að leggja á tiltölulega prógressíva skatta, taka af hátekjumönnum og nota það í samneysluna. En þannig er ekki okkar skattakerfi. Það býður ekki upp á slíkt. Niðurstaðan hefur svo orðið sú að í stað þess að við séum með hæstu álagningarprósentunum að eltast við hina raunverulegu hátekjumenn í þjóðfélaginu erum við með hæstu álagningarprósentunum að eltast við miðlungslaunaþræla. Hvar byrjaði hæsta skattþrepið á síðasta ári? Í 544 þús. kr. Þar fór hæsta skattþrepið að telja í skattlagningu þessa árs. Þetta eru laun sem fjöldinn allur af launamönnum í landinu er með. Það er fráleitt að vera með skattakerfi sem hundeltir þetta fólk og að mínu mati er auk þess þannig að jaðarprósenturnar hafa verið allt of háar. Það voru mjög athyglisverðar tölur sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson gerði grein fyrir í þessum efnum áðan.

Þó að það sé ekki til siðs hjá þessari ríkisstjórn að taka mark á stjórnarandstöðunni frekar en hundum væri kannske ekki úr vegi að hæstv. fjmrh. læsi þau nál. sem gefin hafa verið út, t.d. nál. hv. 3. þm. Reykn., þar sem sýnt er með mjög glöggum hætti fram á að hæsti jaðarskatturinn er á þeim launum sem meðaltal opinberra starfsmanna, og þykja þeir nú ekki hátt launaðir, er með.

Það er m.a. af þessari ástæðu, virðulegi forseti, sem ég fyrir mitt leyti get ekki samþykkt till. á þskj. 324 frá hv. 7. landsk. þm. og hv. 3. landsk. þm. þar sem gert er ráð fyrir því að færa hæstu skattprósentuna úr 38,5% upp í 45,3% og að lækka þrepið úr 800 þús. kr., minnir mig, niður í 734 400 kr. Ég tel að þetta geti ekki verið skynsamleg skattapólitík. Ég held að hún ýti miklu frekar undir að skattakerfið versni en að það lagist frá því sem það hefur verið. Ég skal fúslega viðurkenna að ég hef mjög lengi verið þeirrar skoðunar og hef mjög lengi haldið í þá hugsun að maður vildi hafa hér í landinu tekjuskattakerfi sem væri nothæft til jöfnunar. Það vildi ég helst hafa. En mér sýnist að staðan sé núna þannig að það kalli á að skattakerfið verði sett upp með þeim hætti að frádráttarliðum verði stórkostlega fækkað og mun ég koma að því síðar hér, virðulegi forseti, skattfrelsismörk einstaklinga hækkuð mjög verulega og að álagningarprósenturnar verði einfaldar og ekki eins háar og þær hafa verið. Það er aumt að standa frammi fyrir því núna á fjórða þingi þessarar ríkisstjórnar að hún treysti sér ekki þrátt fyrir mjög víðtæka samstöðu með aðilum vinnumarkaðarins og flokkunum hér á Alþingi, til að gera róttækar kerfisbreytingar í skattamálum sem hafa þann tilgang fyrst og fremst að verja samneysluna í landinu og forsendur þess að ríkissjóð sé hægt að nota til að jafna lífskjör landsmanna.

Í nál. á þskj. 344 geri ég grein fyrir hvaða áhrif þessar tillögur hafa á einstaka hópa skattgreiðenda. Ég tek fyrst dæmi af barnlausum hjónum. Þau eru samtals 20 500 í landinu. Skv. frv. ríkisstjórnarinnar greiða barnlaus hjón á næsta ári 1,5 milljarða kr. í skatta, en skv. brtt. mínum greiða þau 1,3 milljarða tæpa, lækkunin er um 178 millj. kr. Hjón með eitt barn greiða nú samtals 783 millj. kr., en skv. brtt. mínum greiða þau 610 millj. kr. og lækka því um um það bil fimmtung. Hjón með tvö börn greiða nú alls 539 millj. kr. skv. tillögum ríkisstjórnarinnar, en skv. tillögum undirritaðs hins vegar 268 millj. kr. Það þýðir að skattgreiðsla þessa fólks, sem er með börn á framfæri, lækkar mjög verulega vegna hækkunar á barnabótum og barnabótaauka sem ég tek inn í þessar reikningslegu forsendur í nál. Hjón með þrjú börn o.fl. greiða nú samtals 67 millj. kr. í skatta, en fá greitt skv. tillögunum í fjölskyldubætur, þ.e. barnabætur og persónuafslátt, 178,6 millj. kr. þannig að það er veruleg breyting þeim í vil. Mest er þó breytingin að því er varðar einstæða foreldra. Niðurstaðan í sambandi við framteljendur alls kemur fram á síðu 2 í nál., en þar segir m.a.:

Framteljendur á Íslandi eru nú 175 þús. talsins. Skattar þeirra lækka eftir þessum tillögum sem hér segir: Um meira en 5% hjá 10 100 skattgreiðendum, um 2-5% hjá 23 500 skattgreiðendum, um 1-2% hjá 48 700 skattgreiðendum.

Þetta eru áhrifin af þeim tillögum í persónuafslætti og barnabótum sem ég hef gert grein fyrir.

Ég hef þegar gert grein fyrir því að ég ætlast ekki til þess að ríkissjóður verði skorinn niður með þessum tillögum. Ég ætlast til þess að tekjur ríkissjóðs minnki ekki með því að fyrirtækin greiði sinn hlut. Þrátt fyrir tillögur sem þyngja nokkuð byrði fyrirtækjanna frá því sem nú er er nauðsynlegt að vekja sérstaka athygli á því að ég flyt tillögu um að framleiðslufyrirtækin fái heimild til að draga frá hagnaði allt að 5% vegna rannsóknar- og þróunarstarfseini og markaðsleitar. Ég geri ráð fyrir að ríkisskattstjóri setji reglur í þessu efni að höfðu samráði við Rannsóknaráð ríkisins. Ég held að það eigi frekar að nota frádráttarheimildir skattalaga til að ýta undir rannsókna- og þróunarstarfsemi og markaðsleit á vegum fyrirtækjanna en að ýta undir fjárfestingu út af fyrir sig. Fjárfesting sem slík getur ekki verið efnahagslegt keppikefli fyrir þjóðina. Ég held að hér sé um að ræða tillögu sem ríkisstjórnin allra náðarsamlegast mætti gjarnan líta á á sama tíma og hún ver nú skv. fjárlagafrv. 1987 óbreyttri upphæð til Rannsóknasjóðs. Það er sama tala og í fjárlögum ársins 1986. Ég er viss um að svona ákvæði í skattalögum mundi ýta verulega undir vilja fyrirtækjanna og forráðamanna þeirra til að leita nýrra leiða í uppbyggingu fyrirtækjanna, tæknibúnaði fyrirtækjanna, þróunarverkefnum, vöruþróun alls konar t.d. Ég held því að hér sé um að ræða tillögu sem er allrar athygli verð. Ég viðurkenni að markatilfellin geta verið flókin, enda geri ég ráð fyrir því í tillögunni að það verði reglugerðarákvæði hvernig þau markatilvik verði ákveðin.

Ég vil í sambandi við frádráttarliði fyrirtækjanna víkja aftur að risnu fyrirtækja. Í öllum öðrum löndum Vestur-Evrópu eru reglur um risnu fyrir tækja, heimildir til að draga frá risnukostnað. Í Finnlandi er t.d. heimild fyrirtækja til að draga frá risnukostnað að hámarki 2 prómill. Það má hugsa sér svipaða reglu hér, en þó getur verið nauðsynlegt að hafa takmörkin önnur þegar um stórfyrirtæki er að ræða. Þess vegna geri ég ráð fyrir almennum og sveigjanlegum reglum í þessu efni en að risnugjöld fyrirtækjanna verði tekin sérstaklega til athugunar í þessu sambandi.

Frá því að núv. ríkisstjórn kom til valda hafa átt sér stað nokkrar breytingar á skattalögum. Ég ætla að nefna átta dæmi.

Ríkisstjórnin felldi niður skatt á ferðamannagjaldeyri sem var 75 millj. kr. 1983 en væri 213 millj. á þessu ári eða samtals 852 millj. kr. í tíð þessarar ríkisstjórnar, þ.e. hátt í milljarður kr. sem ríkisstjórnin hefur hent út af þessum skatti sem kemur svo niður á Framkvæmdasjóði fatlaðra og öðrum félagslegum framkvæmdum.

Í öðru lagi hefur ríkisstjórnin lækkað skatta af skrifstofu- og verslunarhúsnæði úr 1,4% í 1,1%.

Í þriðja lagi lækkaði hún í fyrstu eignarskatt úr 1,2% í 0,95 en lagði síðan á eignarskattsauka.

Í fjórða lagi hefur ríkisstjórnin, fyrir utan alla frádráttarliðina sem hún hefur látin fyrirtækin fá, lækkað tekjuskatt fyrirtækja úr 65% í 51%, en tekjuskattur fyrirtækja var áður miðaður við hæsta jaðarskatt einstaklinga.

Í fimmta lagi hefur ríkisstjórnin heimilað frádrátt frá tekjum vegna fjárfestingar eða til að kaupa hlutabréf.

Í sjötta lagi hefur hún dregið úr skattskyldu innlánsstofnana sem lækkaði skattgreiðslur banka til ríkissjóðs um 500 millj. kr. á verðlagi ársins 1986 fyrir árin 1984-1986.

Þetta eru meginatriðin í skattbreytingum ríkisstjórnarinnar fyrir utan söluskattshækkun úr 23,5% upp í 25% á þessum tíma. Hluti af þessu átti að fara í húsnæðismál en rennur nú allt í ríkissjóð. Hér er um að ræða skattaívilnanir upp á fleiri milljarða kr. sem örugglega dygðu til að rétta við hallann á ríkissjóði ef menn vildu.

Af þeim ábendingum sem ég hef sett fram í dag má ljóst vera að það er langt frá því að vera neitt ofurmannlegt afrek fyrir ríkisstjórn, hver sem hún er, að reka ríkissjóð Íslands með jöfnuði þrátt fyrir þau samfélagslegu útgjöld sem ríkissjóður verður að bera. Þau útgjöld munu auðvitað vaxa eitthvað á komandi árum, a.m.k. í takt við breytingar á þjóðartekjum og þjóðarframleiðslu. Það verður að sjá fyrir tekjum til að standa undir þeim útgjöldum. Það er alvarlegt, að ekki sé meira sagt, í því góðæri sem nú er um að ræða, aldrei annað eins góðæri, heimsmet í góðæri á þessu ári, að þrátt fyrir það skuli ríkissjóður vera svona illa rekinn og illa staddur eins og raun ber vitni um. Þetta er ekki nýtt þegar íhaldið og þess nótar eru annars vegar. Það má helst aldrei hleypa þeim í ríkissjóð. Þeir setja hann yfirleitt alltaf á hausinn ef þeir mögulega geta hvernig sem árar og hvernig sem viðrar.

Matthías Á. Mathiesen, fyrrv. hæstv. fjmrh., var með ríkissjóð á hausnum öll árin sem hann hafði með það mál að gera og hæstv. núv. fjmrh., formaður Sjálfstfl., fylgir þessari stefnu flokksins að hafa ríkissjóð á hausnum og hæstv. fyrrv. fjmrh. Albert Guðmundsson hafði ríkissjóð á hausnum, enda er það í samræmi við kenningar Sjálfstfl. að hafa ríkissjóð á hausnum. Það er óeðlilegt fyrir Sjálfstfl. að reka ríkissjóð vel. Íhaldsmönnum eins og þeim sem stjórna Sjálfstfl. og sumum frjálshyggjumönnum þar er ekki treystandi fyrir almannafé. Þeir fara illa með það. Það er lögmálsbundið og það eitt er í samræmi við þeirra hugmyndafræði. Þess vegna láta þeir sér í léttu rúmi liggja þó þeir velti milljörðum kr. yfir á næstu ár. Hallinn á ríkissjóði núna á stjórnarárum þeirra hæstv. ráðherra Þorsteins Pálssonar og Alberts Guðmundssonar er litlir 6 milljarðar kr., 6 þús. millj. kr. Þessu er rúllað áfram yfir á næstu ár. Þjóðin þarf á næstu árum að borga af þessu vexti og vaxtavexti. Það er ekki fjarri lagi að ætla að vextirnir af þessu, einungis vextirnir af þessu á næsta ári séu langleiðina framkvæmdaframlög ríkissjóðs á árinu 1987. Það er svipuð upphæð sem borgast í vexti af óreiðuskuldum Alberts Guðmundssonar og Þorsteins Pálssonar og greitt er í framkvæmdaframlög eins og þau leggja sig á árinu 1987.

Virðulegi forseti. Við meðferð þessa máls í þinginu undanfarna daga og í fjh.- og viðskn. hefur komið fram að reiknivélar Þjóðhagsstofnunar hafi ekki við að reikna góðærið. Það kemur einn góðan veðurdag sendimaður frá fjmrn. á fund fjh.- og viðskn. og sendimaðurinn segir að góðærið hafi verið vitlaust reiknað, það hafi reynst meira, það sé 18,5% á milli áranna 1986 og 1987 og 35% milli áranna 1985 og 1986. Og þegar þeir stjórnarliðar í nefndinni eru loksins búnir að skilja að þeir eiga auðvitað að gegna embættismanninum sem kemur frá fjmrn., enda með dagskipun væntanlega frá fjmrh., hlýða þeir náttúrlega allir, hv. þm. Páll Pétursson og félagar, gegna embættisliðinu eins og þeir eru vanir. Framsókn hefur gegnt embættisliðinu núna í 15 ár, alltaf verið í stjórn í hálfan annan áratug og ekkert gert annað en að gegna embættismönnum. Hún er vön því. Og það er ekki erfitt fyrir fjmrh. að stjórna framsóknarmönnunum. (GJG: Þeir hafa komist á eftirlaun.) Óska til hamingju með það, en Framsfl. er að komast á eftirlaunaaldur eins og kunnugt er. Þegar þessar upplýsingar koma loksins til okkar í fjh.- og viðskn. og þeir eru búnir að skilja þetta, stjórnarliðar, og við göngum út úr herbergi fjh.- og viðskn. í Þórshamri, göngum inn í þingsalinn, þinghúsið, bíður nýtt bréf: Meira góðæri. Og nú eru það ekki 18,5 heldur 20%. Mér segir svo hugur um að hæstv. fjmrh. hafi beðið reiknimennina að stöðva reiknivélarnar meðan þingið væri að afgreiða þessi skattamál vegna þess að það ruglar að vera alltaf að reikna góðærið upp á nýtt þegar það er svo rosalegt eins og raun ber vitni um núna.

Ég er sannfærður um að launaskriðið á þessu mikla veltiári er örugglega ekki ofmetið í þeim tölum sem þegar hafa birst hæstar. Ég er líka sannfærður um að ef þjóðartekjurnar vaxa á næsta ári um 4% eins og nú er verið að spá fylgir því líka launaskrið umfram það sem menn gera yfirleitt ráð fyrir núna. Það er líka vegna þess að kjarasamningarnir eru ekki nema rétt að byrja. Það er búið að festa þar tilteknar viðmiðunartölur. Allir sérsamningar eru eftir. BSRB er eftir. Fjöldi félaga innan Alþýðusambandsins er eftir. Þessi sprengja, sem er varpað í taxtakerfi verkalýðssamtakanna með samningunum, getur því haft í för með sér að það verði meiri þensla í þessum málum en menn sjá fyrir.

Þá er alveg ljóst að það að reikna út hagnað fyrirtækjanna á árinu 1986 og 1987 út frá árinu 1985 er afar hæpið. Ég hygg að það megi slá því föstu að hagnaður og svigrúm fyrirtækjanna á þessu og næsta ári sé langt umfram það sem menn gera almennt ráð fyrir og því muni skattar fyrirtækjanna geta skilað hærri tölum en menn hafa verið að fjalla um að undanförnu. Þess vegna eru þær tillögur sem ég hef hér flutt um breytingu á persónusköttum og að á móti komi breyting á fyrirtækjasköttum örugglega ríkissjóði ekki í óhag. Ég hygg að hann muni hafa verulegan ávinning út úr þeim tölum.

Ég tel auk þess að ríkissjóður muni hafa meira út úr persónusköttunum á næsta ári en gert er ráð fyrir í mínu nál. og í tillögum meiri hl. Ég hygg að hann muni fá meira út úr persónusköttunum vegna þess að ég hygg að enn þá sé launaskriðið vanmetið þrátt fyrir hinar nýju háu tölur Þjóðhagsstofnunar.

Það er rétt, sem bent hefur verið á, að frádráttarliðir fyrirtækjanna eru stórt vandamál í skattlagningarmálum, en það eru líka frádráttarliðir einstaklinganna. Það er athyglisvert að horfa á að frádráttur vegna bílastyrkja er 1000 millj. kr. á þessu ári. Það eru náttúrlega ekki bara greiðslur á kostnaði við akstur. Það vitum við. Bílastyrkir eru gjarnan notaðir innan fyrirtækja til launauppbótar og koma helst þeim til góða sem eru með hæst launin fyrir, alls konar forstjórum, skrifstofustjórum og þess háttar liði.

Það er einnig athyglisvert að frádráttur vegna vaxta er 2,5 milljarðar kr. á þessu ári. Ég hygg að þetta svigrúm ríkissjóðs mætti nota miklu betur, t.d. til að greiða húsnæðisframlög sem væru í fastri krónutölu handa þeim sem eru að byggja og kaupa íbúðir vegna þess að vaxtafrádrátturinn eins og hann er kemur þeim langbest sem hafa mesta möguleika til að skulda og þekkja best til í hinu almenna peningakerfi.

Niðurstaðan er því sú að ég tel óhjákvæmilegt, þegar við stöndum frammi fyrir því að það er verið að flytja hér frv. um virðisaukaskatt, um tollalög, um tekju- og eignarskatt og það liggur í skúffunni þarna hjá félmrh. frv. um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, það er talað um að breyta í grundvallaratriðum öllu skattkerfi þjóðarinnar, þá er það nauðsynlegt að ríkisstjórn, sem vill taka verkefni sitt hátíðlega, beiti sér fyrir því að flokkarnir á Alþingi, í stjórn og stjórnarandstöðu, og aðilar vinnumarkaðarins setjist niður með fulltrúa sína og fari yfir skattakerfið í heild og reyni að koma sér saman um heildstæða stefnu í skattamálum sem víðtæk samstaða er um, líkt og gerst hefur í Danmörku þar sem stjórn Schluters hefur stuðlað að allsherjarsamkomulagi flokkanna og aðila vinnumarkaðarins um alla álagningu persónuskatta.

Hæstv. fjmrh. hefur ekki viljað stuðla að þessu samkomulagi. Hann veit sem er að ríkisstjórnin er sama sem dauð þannig að það er ekki mikil ástæða til þess fyrir hann að gera kröfu til þess að við tökum út af fyrir sig mikið mark á honum sem fjmrh. Hins vegar er óþarfi fyrir hann að vera svo hógvær að taka ekki undir góðar hugmyndir í þessu efni sem koma frá stjórnarandstöðuflokkum sem einhverjir a.m.k. gætu nú orðið ríkisstjórn áður en langur tími líður hvernig sem þau mál öll skipast. Og þó að ríkisstjórnin sé sama sem dauð, þökk sé stjórnarskránni, er ljóst að við erum í þessari umræðu og undanfarna daga og í nefndum þingsins með frv. um allt skattakerfið eins og það leggur sig og þá á að nota tækifærið til að setja niður hóp á vegum flokkanna og aðila vinnumarkaðarins um allt þetta skattakerfi til að stuðla að sem bestri samstöðu um það þannig að sem bestur friður ríki um þennan hornstein samneyslunnar í landinu.

Samkvæmt mínu nál. legg ég til, virðulegi forseti, að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem ég geri á sérstöku þskj., auk þess sem ég lýsi stuðningi við þær brtt. sem fluttar eru um breytingu á barnabótum og barnabótaauka. Fari svo að ríkisstjórnin og stjórnarliðið felli þær tillögur sem ég geri í sambandi við fyrirtækin hefur það áhrif á afstöðu mína til annarra brtt. og ég mun fremur við lokaafgreiðslu málsins, ef svo illa fer að stjórnin hafnar öllum brtt. minni hl., styðja þær brtt. sem meiri hl. flytur en að greiða ekki atkvæði í málinu vegna þess að ég tel að þetta sé til bóta. Þetta er lítið skref en allt of stutt í þessari stöðu.