21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

Fyrirspurnir

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vildi vekja athygli á því að á þskj. 36 og 37 hafa verið bornar fram tvær fsp. um alveg sama efni til menntmrh., um stöðu rannsóknarlektors í sagnfræði við heimspekideild Háskóla Íslands. Ég tel, herra forseti, að hér sé verið að fara á svig við þingsköp og misnota fyrirspurnaformið. Það gefur auga leið að þm. sem vill bera fram fsp. í fjórum liðum, ef fara skyldi eftir þessari reglu hér, ber hana fram á fjórum þskj. til þess eins að fá meiri tíma til umræðna og til að kynna sitt mál. Ég er ekki að leggja efnislegan dóm á það sem um er hér spurt, það er ekkert um það að ræða, heldur er málið það að hér hefur fsp. verið klofin í tvennt. Það hefði alveg eins mátt setja hana fram á fjórum þskj. Ég held, herra forseti, að hér sé verið að fara inn á vafasama braut í þingvinnunni að ekki sé meira sagt og þegar berast fsp. um sama efni frá einum þm., þó að þeim sé skipt á tvö þskj., eigi þær í raun að vera á einu þskj. að eðli máls. Ég vildi vekja athygli á þessu.