16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

200. mál, breytingar á lánskjaravísitölu í september 1983

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Saga þessa máls er öll með miklum ólíkindum og endemum. Hæstv. félmrh. byrjaði á að lýsa því yfir að niðurstaða Húsnæðisstofnunar væri rétt. Aðstoðarmaður félmrh. lýsti því þá yfir að það væri ekki rétt með farið í afstöðu Húsnæðisstofnunar í þessu efni að láta þetta aðeins ná til eins lántakanda í september 1983. Síðan snýr hæstv. félmrh. við blaðinu með þeim hætti sem upplýsingar komu fram um áðan. Þetta er auðvitað eftir öðru í meðferð mála af þessu tagi á undanförnum árum og það er aumt af hæstv. ráðh. að gera tilraun til að víkja sökinni í þessum efnum að embættismönnum í Húsnæðisstofnun ríkisins því að það er bersýnilegt að félmrn. er steinsofandi í þessu máli á þriðja ár áður en það rumskar á þann hátt sem hefur komið fram.

En aðalatriðið er að gera sér það ljóst að núna stöndum við frammi fyrir því á fjórða ári ríkisstjórnarinnar að eftir kjaraskerðinguna 1983 verður fjöldi fólks, þúsundir lántakenda fyrir stórfelldri skerðingu vegna hækkunar lánskjaravísitölunnar. Það hefur ekkert verið fyrir þetta fólk gert. Það eru síðustu forvöð fyrir ríkisstjórnina að gera grein fyrir því hér og nú: Hvað ætlar hún að gera í þessu efni á þessu þingi? Er þess að vænta að félmrh. leggi fram frv. um að taka á vandamálum þessa fólks sem verður fyrir hinu harkalega misgengi launa og lána í tíð ríkisstjórnarinnar?