16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

200. mál, breytingar á lánskjaravísitölu í september 1983

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að koma hér upp og gera örstutta athugasemd vegna þess að þessi vinnubrögð eru dæmi um hvernig stjórnvöld fela útreikninga ríkisfjármála í hendur sérfræðingum sem sjá ekkert fyrir framan sig annað en tölur og reikna dæmi án þess að taka tillit til örlaga þess fólks sem lendir í dæminu. Það versta við þetta dæmi var að sérfræðingarnir kunnu ekki að reikna. Þeir reiknuðu ekki dæmið til enda, hver yrðu örlög þess fólks sem lenti á bak við tölurnar.

Forsrh. hefur þegar viðurkennt að þetta voru afglöp, þetta voru mistök. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að leiðrétta þessi mistök, sín eigin mistök, gagnvart fólkinu sem e.t.v. kaus þá?