16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

200. mál, breytingar á lánskjaravísitölu í september 1983

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Hér er á ferðinni þvílíkur ódrengskapur frá hendi ráðherra að það verður lengi í minnum haft. Ég hef haft samband við embættismenn þá sem hafa höndlað með þessi mál og það er ljóst að öll þeirra svör hafa verið í takt við það sem félmrh. hefur sagt þeim að gera. Allt sem þar hefur verið gert hefur verið gert í samráði við félmrh.

Núna, þegar að honum er þrengt, skellir hann skuldinni á embættismenn sem hefðu viljað gera miklu betur og hafa ekki skilið þá vitleysu sem samþykkt var í ríkisstjórn á sínum tíma, þ.e. á þann hátt að venjulegt fólk skildi ekki hvað var á ferðinni, a.m.k. eftir að útskýringar félmrh. í gegnum Húsnæðisstofnun komu fram.

Ég endurtek að sá ódrengskapur sem kemur fram í þessu svari er þvílíkur að hann hlýtur að vera lengi í minnum hafður hjá starfsmönnum þeirrar stofnunar sem starfa undir hans stjórn.