16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1797 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

200. mál, breytingar á lánskjaravísitölu í september 1983

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég vil aðeins gera örstutta athugasemd þar sem fram kom gagnrýni hjá hæstv. ráðh. á þann mann sem reiknaði út hvað þetta mundi þýða ef lækkunin kæmi á öll lán. Það eru 3% af öllum þeim lánum sem Húsnæðisstofnun ríkisins hefur veitt, það eru 120-130 millj., og mér finnst það ekki ýkja maklegt af hæstv. ráðh. að gagnrýna úr þessum stól upplýsingar sem koma frá embættismanni þegar hann hefur engin tök á því að koma að neinni leiðréttingu. Ég vildi að þetta kæmi fram. Það er erfitt að afla upplýsinga nákvæmlega um það hve mörg lán eru á lánskjaravísitölu og hve mörg lán eru á byggingarvísitölu og hve mörg lán hjá Húsnæðisstofnun eru þá óverðtryggð. Mér þætti vænt um það ef hæstv. ráðh. gæti komið slíkum upplýsingum á framfæri vegna þess að þessi lækkun nær ekki til allra þeirra sem báru þessar byrðar á sínum tíma eins og ég kom að áðan án þess að hæstv. ráðh. kæmi með nokkurt svar þar á móti.