16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

200. mál, breytingar á lánskjaravísitölu í september 1983

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess að ég mun láta dreifa hér á Alþingi skilagrein Húsnæðisstofnunarinnar, ráðgjafarstofnunar, um þær aðgerðir sem fram hafa farið til þess að leysa úr greiðsluvanda fólks. Þar geta hv. þm. séð svart á hvítu hvernig úr þessu hefur verið leyst. Þar koma m.a. fram glögg dæmi sem forstöðumaður ráðgjafarstofnunarinnar hefur sett fram þar sem greiðslubyrði fólks getur og hefur lækkað úr 50% niður í 26% fyrir þessar aðgerðir. Það er ekki rétt að skilgreina þetta sem lán ofan á lán af þeirri einföldu ástæðu að þessi meðferð hefur verið þannig að það hefur einvörðungu verið leitast við að létta greiðslubyrðina með því að greiða upp vanskil á skammtímalán og þannig hafa vanskilaskuldirnar lækkað sem því nemur en hækkað með hagkvæmu nýju láni um sömu upphæð. Þetta hefur verið aðalatriðið.

Ég hef ekki tíma, herra forseti, til að fara nánar út í þetta. Mig langar aðeins að segja við hv. fyrirspyrjanda að ef hún telur sig ekki hafa fengið fullnægjandi svör hér skal hún koma og biðja um viðbót ef hún vill. Ég skal fúslega láta henni hana í té og sömuleiðis mun ég láta fjölmiðla fá þau gögn sem ég hef lesið upp úr.