21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

41. mál, orlofsdeild Póstgíróstofu

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Eins og þingheimi mun kunnugt hefur svo verið á annan áratug að stór hluti af launafólki hefur ávaxtað orlofsfé sitt innan orlofsdeildar Póstgíróstofunnar. Ég hef lengi haft ýmsar athugasemdir fram að færa, bæði við þessa ávöxtunaraðferð vegna þess að ég tel hana verri en aðrar ávöxtunaraðferðir bjóða upp á og ekki síður hitt að ekki hefur allt verið sem skyldi að mínu viti í samskiptum forsvarsmanna orlofsdeildar Póstgíró við launþega og stéttarfélög.

Ég hef haldið því fram og tel það rétt að ávöxtun orlofsfjár í þessu kerfi eigi að vera liðin tíð. Það eru miklu hagstæðari ávöxtunarmöguleikar fyrir hendi og því hafi verið rétt að breyta til. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að lesa hér bréf sem formála að þeim fsp. sem hér eru lagðar fram. Það er undirritað af hæstv. félmrh. þann 25. apríl 1986. Ég held að það segi nokkuð um a.m.k. hluta af fsp. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í framhaldi af viðræðum við yður varðandi vexti af orlofsfé fyrir orlofsárið 1. maí 1985 til 30. apríl 1986 hefur ráðuneytið í dag ákveðið að vextir af orlofsfé, sem kemur til greiðslu eftir 1. maí n.k., verði 24%. Jafnframt lýsir ráðuneytið yfir því að verði halli á orlofssjóði, þ.e. að vaxtatekjur nægi ekki til þess að standa undir greiðslu þessara vaxta til launþega, muni ráðuneytið vinna að því að sá halli verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 11. gr. laga nr. 87/1971 með síðari breytingum, og/eða með samningum við Seðlabanka Íslands og Póst- og símamálastofnunina.“

Þetta segir æðimikið. Ég hygg líka að það hafi verið innt af hendi einhver greiðsla af hálfu ríkissjóðs til orlofsdeildar Póstgíró. Ég tel nauðsynlegt að fá um það umræður á Alþingi hvað þarna hefur gerst og því hef ég leyft mér að setja fram á þskj. 41 til hæstv. félmrh. eftirfarandi fsp.:

„1. Hefur ríkissjóður innt af hendi vaxtagreiðslur til orlofsdeildar Póstgíróstofunnar fyrir orlofsárið 1985-1986?

2. Ef svo er, hver var upphæð greiðslunnar?

3. Telur ráðherra að stéttarfélög eigi að ávaxta orlofsfé innan Póstgíróstofunnar?"

Í þessu tilfelli vil ég benda á að þarna hefur verið orðað á annan hátt en ég gerði ráð fyrir. Ég vildi spyrja að því hvort hæstv. ráðherra vildi enn þröngva stéttarfélögum til að ávaxta fé í orlofsdeild Póstgíró og kem kannske að því síðar.

„4. Hver er að mati ráðherra rekstrargrundvöllur orlofsdeildar Póstgíróstofunnar?"

Ég dreg mjög í efa að hann sé góður og er nærri viss um að hann fer sífellt versnandi.