16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

Fyrirspurn um fjárhagsvanda Þjóðleikhússins

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Vegna þess að nú er haldinn síðasti fyrirspurnafundur Sþ. fyrir jól hlýt ég að taka mér það bessaleyfi að benda á að ég hef haft hér fyrirliggjandi fsp. til hæstv. menntmrh. um fjárhagsvanda Þjóðleikhússins. Sú fsp. var beinlínis til þess gerð að reyna að hafa áhrif á að hv. fjvn. brygðist við þeim vanda eins og hann er.

Nú hefur hæstv. ráðh. tjáð mér að hann muni ekki geta svarað fsp. á þessum fundi og þess vegna vil ég, herra forseti, og vænti þess að ekki verði litið á það sem brot á þingsköpum, beina örfáum orðum til hv. fjvn. Ég hlýt að benda henni á, þar sem fjárlög verða væntanlega afgreidd fyrir þinghlé, að í upplýsingum frá fjvn. kemur í ljós að frá árinu 1978 til 1985 hafa framlög ríkisins í hlutfalli við tekjur Þjóðleikhússins lækkað úr 63,76% sem þau voru 1978 í 53,50% 1984, og í hlutfalli við gjöld úr 63,51% í 47,25. Samkvæmt fjárlagafrv. fyrir 1987 eins og það liggur fyrir fara þessar tölur, og ég bið hv. þm. að hlusta . . . (Forseti: Ég vil minna hv. þm. á, þegar óskað er eftir orðinu um þingsköp, að halda sér við þingsköp en ræða ekki mál efnislega.) Ég er rétt að ljúka máli mínu, herra forseti. Ég hlýt að benda á þar sem ég mun ekki fá annað tækifæri til þess fyrir jól að nú fara þessar tölur í 36,82% í hlutfalli við tekjur leikhússins og 29,36% í hlutfalli við gjöld. Þetta er auðvitað ekki orðið annað en svo lélegur farsi að ekkert leikhús fengist til að leika hann.

Ég vil beina þessum orðum mínum til hv. fjvn. og upplýsa hana í leiðinni um að norska þjóðleikhúsið er rekið fyrir framlög ríkisins að 90%. Danska þjóðleikhúsið, Konunglega leikhúsið, er nær 90%.

Herra forseti, ég vona að mér verði fyrirgefið þó ég veki athygli á þessu þar sem ég virðist ekki geta fengið svör við þessari spurningu sem búin er að liggja fyrir miklu meira en eðlilegan tíma og ég beini þeim orðum mínum til hv. fjvn. að þetta ástand í málum Þjóðleikhússins verði leiðrétt við seinustu meðferð fjárlaga.