16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

Fyrirspurn um fjárhagsvanda Þjóðleikhússins

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég tók það einmitt fram, hv. 3. þm. Reykv., að ég ætlaði að sitja fyrir svörum um þessa fsp. Tölur, sem að þessu lúta og þarfnast þess auðvitað að leitað sé nákvæmra upplýsinga um, eins og hundraðshluta af reksturskostnaði sem ríkið hefur lagt Þjóðleikhúsinu til í 10 ár, hef ég ekki í minni mínu en það sem hv. þm. kallar pólitískar meiningar eða skoðanir á málinu ætla ég að setja fram þegar að þessari fsp. kemur. Mér heyrðist hæstv. forseti vor vera að taka fyrir annað dagskrármálið rétt áðan þegar umræðan um þingsköpin hófst þannig að það er ekki komið að því fimmta eða hvað það er sem að þessu máli lýtur - (Gripið fram í: Því fjórða.) eða fjórða - þannig að þetta upphlaup er út í bláinn hjá hv. 3. þm. Reykv. (SvG: Verður það tekið fyrir í dag?) Það var upplýst hér af hæstv. forsetanum einmitt í þann mund sem þm. var að kveðja sér hljóðs.