16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

201. mál, fjárhagsvandi Þjóðleikhússins

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir að þetta mál var tekið á dagskrá og jafnframt þakka hæstv. ráðh. fyrir að fallast á það.

Með tilliti til þeirra umræðna sem hafa þegar orðið skal ég sýna þinginu þá virðingu að stytta aðeins mál mitt og byrja strax á þeim spurningum sem ég hef leyft mér að leggja fyrir á þskj. 213, en það eru fimm spurningar til hæstv. menntmrh. og þær hljóða svo, með leyfi forseta:

„1. Hve háan hundraðshluta af rekstrarkostnaði Þjóðleikhússins hefur ríkissjóður greitt með framlagi á fjárlögum á ári hverju s.l. tíu ár?

2. Hvers vegna hefur halli á rekstri leikhússins ekki fengist greiddur með aukafjárveitingum en þess í stað verið færður því til skuldar?

3. Hvenær má búast við að nauðsynlegum viðgerðum og endurbótum á leikhúsbyggingunni ljúki?

4. Telur ráðherra að Þjóðleikhúsið ráði við að fullnægja þeim kröfum um listræna starfsemi á ýmsum sviðum, sem lög hafa sett því, með þeim framlögum sem leikhúsið hefur fengið á fjárlögum undanfarin ár?

5. Er nokkur efi um það hjá núverandi stjórnvöldum að Þjóðleikhúsið skuli áfram starfa samkvæmt lögum um Þjóðleikhús, nr. 58/1978?"

Ég get út af fyrir sig aðstoðað hæstv. ráðh. við að svara þeirri spurningu sem er þarna nr. 1, um hve háan hundraðshluta ríkið hefur lagt fram. Þær upplýsingar hef ég þegar fengið frá fjvn. En með tilliti til þess að skriflegt svar liggur ekki fyrir í höndum hæstv. ráðh. þá get ég fallist á að hann veiti mér þessar upplýsingar seinna.

Ég held að það sem málið snýst um sé raunverulega falið í fimmtu spurningunni sem er spurning um það hvort það hafi nokkuð breyst að íslensk stjórnvöld vilji reka þjóðleikhús, vilji setja því þann metnað og þau markmið sem því voru upphaflega sett og síðar með þeim lögum sem sett voru í tíð hæstv. fyrrv. menntmrh. Ingvars Gíslasonar.

Það er alveg ljóst að rekstur Þjóðleikhússins er ógerlegur og óframkvæmanlegur nema veruleg breyting verði á viðhorfi fjárveitingavaldsins til leikhússins. Þess vegna leyfi ég mér að biðja hæstv. ráðh. að svara því kannske fyrst og fremst hvort við höfum þann metnað sem við höfum öll haldið að við hefðum fyrir Þjóðleikhús Íslendinga.