16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

201. mál, fjárhagsvandi Þjóðleikhússins

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Þessari síðustu spurningu svara ég á þá leið að þann metnað verðum við að hafa. Hv. fyrirspyrjandi tók af mér ómakið enda hef ég ekki upplýsingar undir höndum til að geta leyst úr fyrsta lið fsp. en mér er tjáð að sá hundraðshluti sem af hendi hefur verið látinn rakna við leikhúsið sé miklu lægri hér en þekkist yfirleitt á öðrum löndum sem við höfum upplýsingar frá. Varðandi Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn minnir mig að talan 85% hafi verið nefnd við mig en mig rámar í þá tölu að framlag til Þjóðleikhússins á árinu 1985 hafi verið milli 50 og 60%, ég þori ekki að fara nákvæmar með þá tölu, og var allt of lágt.

Spurt er: Hvers vegna hefur halli leikhússins ekki verið réttur af með aukafjárveitingum? Það er mála sannast að það tók afar snarlega að halla á ógæfuhliðina fyrir Þjóðleikhúsinu á árunum 1985, og 1984 reyndar, og 1986. Ég man að fyrir tvö fyrri árin hafði hallinn safnast saman í 88 millj. kr. af ýmsum ástæðum sem ég hirði ekkert að nefna. Sett var á fót, og hafði verið af fyrirrennara mínum, nefnd með formanni þjóðleikhússtjórnar og þingmanni að vísu sem gat ekki tekið málið að sér. Ég fékk síðar, þegar ég kom til skjalanna, hv. þm. Árna Johnsen úr fjvn. til þess að taka sæti í nefndinni til þess að gera úttekt á fjárhagsstöðu Þjóðleikhússins, þar með talið á viðhaldsmálum hússins sem mjög hafa gengið úrskeiðis þannig að menn hafa orðið fyrir því í sjónvarpi að sjá hvar menn hafa verið að skara í öskuhrúgu eins og manni hefur virst þeir sýna þar að húsið væri orðið úr garði gert. Þó er það nú ekki þann veg á að líta en það mun taka verulegan tíma að endurbæta húsið og kosta mikið fjármagn til þess að koma því í viðunanlegt stand. Að þessu er unnið og að þessu vinnur úttektarnefndin, að gera áætlanir, bæði fjárhagslegs og framkvæmdalegs eðlis, um endurbæturnar.

Ég álít reyndar að Þjóðleikhúsið hafi staðið nokkuð vel í ístaðinu að fullnægja hinum listrænu kröfum sem svo eru kallaðar og þeim kröfum sem hljóta að vera uppi í þjóðfélaginu um listræna starfsemi þess. Satt best að segja er það skemmtileg staðreynd að Íslendingar eru elskari að sínum leikhúsum en aðrar þjóðir og skara í því efni fram úr öðrum. Af því getum við verið stolt og með það getum við verið ánægð og fyrir því er það líka að við megum ekki svíkja fólk og bregðast þessum átrúnaði og elsku sem það er haldið í garð leikhúsanna sinna með því að halda þann veg á málum eins og dæmin sanna um Þjóðleikhúsið.

Ég nefndi hallann, 88 millj., beinan halla á tveimur árum og menn sjá að hér þurfa menn að leggja allstórt undir til þess að rétta hag hússins og einnig að láta fjármuni af hendi rakna til viðgerðar. Menn hafa haft sem viðmiðun núna tillögur um 7,5 millj. kr. eða því sem næst til viðhalds á næsta ári og menn eru að gera sér vonir um við lokaafgreiðslu fjárlaga að menn sjái af eitthvað á þriðja tug milljóna til þess að bæta rekstur hússins.

Ég hef allan fyrirvara á um þessar tillögur vegna þess að hvorki ríkisstjórn og þar af leiðandi ekki fjvn. hafa gengið frá áætlunum sínum um B-hluta fyrirtæki ríkissjóðs. Þess vegna er það að ég hef fyrirvara á um það sem ég upplýsi en þetta er það sem menn hafa rætt sín í milli um hvaða skref yrðu stigin til þess að rétta hag hússins því að ekkert annað kemur til mála en að það verði gert og því gert fært að þjóna því hlutverki sem við ætlum því og það er enginn efi á því í mínum huga að Þjóðleikhúsið skuli áfram starfa í þeim anda sem lögin segja til um og við öll vitum til hvers við ætlumst af því. Ég játa fúslega að það hefur dregist úr hömlu að leggja fyrir og framkvæma þau bjargráð sem blasir við að framkvæma verður til handa leikhúsinu, en ég hins vegar geri mér vonir um það að nú sé u.þ.b. að hefjast sú atrenna sem við getum ætlað að reisi þessi mál úr rústum sem þau eru vissulega komin í ef svo má að orði kveða.