16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

Fyrirspurn um skólaakstur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Mig er farið að lengja eftir svari við fsp, sem var lögð fram 6. nóv., komnar bráðum sjö vikur síðan þessi fsp. var lögð fram, og fjallaði um söluskattsskil. Hún var á þskj. 134. Það var spurt að því hvort þess væru dæmi að fjmrn. ákvæði upp á eindæmi, þ.e. umfram það sem er í reglugerð, að fresta innheimtuaðgerðum eða greiðslu á tolli og söluskatti með skuldabréfum. Mér þykir ástæða til að vekja athygli á því að þessari fsp. skuli enn ekki hafa verið svarað þó að sjö vikur séu nærfellt liðnar síðan óskin var lögð fram og vænti þess að forseti ýti við viðkomandi aðilum.

Það var ekki hugmynd mín með þessari fsp. að fjmrn. færi að tíunda allar aðgerðir sínar skv. gildandi reglugerðum heldur einungis þegar það tæki sér sérstakt vald umfram það sem er í reglugerðum til að fara í aðgerðir af þessu tagi. Ég hélt satt að segja ekki að það væru slík feikn af undanþágum og ráðherraúrskurðum að það þyrfti að taka meira en sjö vikur að svara fsp. af þessu tagi og vænti því að nú muni því fljótlega linna og svar fást við fsp. Ég óska eftir því að forseti ýti á eftir svörum.