16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

Fyrirspurn um skólaakstur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég sé mér ekki annað fært en leggja örfá orð í belg um þingsköp. Hér hefur orðið nokkuð einkennileg atburðarás sem ég er ekki fyllilega sátt við. Hér virðist gilda réttur þess frekari eða þess sem sporléttastur er í ræðustól um þingsköp.

Annað dagskrármálið á þessum fundi er fsp. um umhverfismál frá undirritaðri og hv. þm. Árna Gunnarssyni og Hjörleifi Guttormssyni. Hæstv. forseti var búinn að taka þetta mál á dagskrá þegar hv. 10. landsk. þm. kvaddi sér hljóðs um þingsköp og hóf efnislega umræðu um 4. dagskrármálið. Hæstv. forseti tók það þá til umræðu á undan öðru dagskrármálinu. Ég verð að lýsa því yfir að mér finnast það vera undarleg vinnubrögð. Ég hef að vísu ekki safnað neinum hér á þingpalla til að hlusta á orðaskipti út af umhverfismálum, en ég hefði talið eðlilegt að halda þeirri röð sem hér er á dagskránni, enda annað dagskrármálið komið fyrr fram en það fimmta, hversu brýnt sem menn telja það vera og áríðandi að taka það á undan öðrum málum.

Ég ætlaði að fara að segja: Nú sýnist mér sem hæstv. ráðh. sem fsp. er beint til sé horfinn, en ég sé að hann er mættur hér og því spyr ég ráðherrann: Verður þessi fsp. tekin á dagskrá núna eða ekki?