21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

41. mál, orlofsdeild Póstgíróstofu

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir hans svör sem ég raunar taldi mig nokkuð vita um. Það hefur komið í ljós að um 11 millj. hefur verið varið úr ríkissjóði til að greiða vaxtatekjur hjá orlofsdeild Póstgíró það orlofsár sem við erum hér að tala um. Þetta þýðir í reynd að það vantar 3% upp á að það væru greidd þau vaxtakjör sem hægt er að fá í öðrum peningastofnunum. Það vantar 3% upp á það plús rekstrarkostnað orlofsdeildarinnar. Það finnst mér æðimikið ef launþegar eiga að fara að standa undir þessum rekstri plús það að fá minni ávöxtun en þeir geta með öðrum hætti fengið, en það er auðvitað meginmálið.

Ég fullyrði að það var svo lengst af að ávöxtun hjá orlofsdeild Póstgíró var miklum mun lægri en hægt var að fá annars staðar í kerfinu. Hún hækkar ekki fyrr en það var gert samkomulag á Vestfjörðum um að stéttarfélögin semdu við sína vinnuveitendur og peningastofnanir um að ávaxta féð innan þeirra. Þá stórbötnuðu ávöxtunarkjörin. Þetta er hægt að gera miklu víðar. Þrándur í götu þess að þetta verði gert hefur verið tregða bæði hæstv. félmrh. og kerfisins við að viðurkenna að við verðum að breyta um stefnu.

Þetta er nauðsynlegt að menn skoði því að að auðvitað nær ekki nokkurri átt að skattpeningar orlofsþeganna séu nýttir til að borga hækkaða vexti í orlofsdeildinni. Þetta er hrein hringavitleysa og tekur engu tali. Það á að ávaxta þetta fé á skynsamlegasta hátt sem hægt er að gera í peningastofnunum og með eðlilegum hætti. Það mætti því að mínu viti leggja þessa stofnun niður. Hún hefur ekki lengur neinum tilgangi að þjóna ef menn á annað borð vilja bæði spara og láta fólk njóta þeirrar ávöxtunar sem launafólk á rétt á við þær aðstæður sem við erum að tala um.

Ég vænti þess að þetta sé fleirum hv. þm. ljóst en mér og ég vænti þess svo sannarlega, af því að ég er einn af þeim sem eiga sæti í þeirri nefnd sem hæstv. ráðherra vitnaði til, að sú nefnd fari að skila af sér. Það er löngu kominn tími til að svo verði gert. En ég spyr hæstv. félmrh.: Fylgdu engar yfirlýsingar af hálfu hæstv. ráðherra því bréfi sem hann skrifaði undir og ég las áðan að því er varðar framhaldið á ávöxtun orlofsfjárins? Ég spyr hæstv. ráðherra: Fylgdu engar yfirlýsingar um hvað skyldi gera í framhaldi af þeirri niðurstöðu að ríkið færi að borga þessar milljónir með orlofsdeildinni?