16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

220. mál, sjálfvirkur sleppibúnaður björgunarbáta

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það má auðvitað deila um það óendanlega hvort það hafi átt að viðurkenna nokkurn sjósetningarbúnað á sínum tíma vegna þess að hann var ekki fullmótaður. En reynslan hefur kennt okkur að þessir tveir aðilar, sem eftir eru, hafa verið að bæta sinn búnað og ég tel að það sé fengur að því. Hins vegar er það í höndum ráðuneytis hvort það tekur við öllum tillögum sem koma frá nefndum. Það er tekið við flestum tillögum frá öryggismálanefnd. Við töldum rétt að þessi þróun ætti sér stað og fólum Siglingamálastofnun að gera það. Það hefur verið gert og ég tel ekkert óeðlilegt við það þó að það sé beðið eftir þeirri umsögn og því eftirliti sem fylgt hefur verið eftir síðan.