16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

226. mál, bætt merking akvega

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin og ég fagna því sem hann upplýsti um framgang þessa máls, enda ærin þörf eins og dæmin sanna. Það þarf að vinna að þessu á öllum vígstöðum ef svo má að orði komast. Það er mjög brýnt og það þekkjum við að bæta merkingar og leiðbeiningar á þjóðvegunum og stofnbrautum og öðrum helstu umferðaræðum, en það er ekki síður nauðsynlegt að merkja vel aðra og fáfarnari vegi og þá þar sem útlendingum einkum og sér í lagi er kannske mesta hætta búin. Ég tók sem dæmi merkingu sem getur út af fyrir sig dugað Íslendingum sæmilega, en Kverkfjallaleið, um 100 km vegalengd frá Möðrudalsöræfum og inn að Vatnajökli, var til skamms tíma merkt með einu fremur lítilfjörlegu krossviðarspjaldi á hverju stóð „jeppavegur“, enda var það ekki óalgengt að hitta á þeirri leið útlendinga á illa búnum bílum í hreinustu vandræðum. Það getur vel verið að búið sé að setja upp nýtt skilti við Kverkfjallaleið, en eins og ég rakti áðan var annar farartálmi, Krossá, ekki vandlegar merktur en svo að þar fundust engin merki s.l. sumar.

Ég bendi hæstv. ráðh. á að þó það sé vissulega rétt og gott að byggja brýr og greiða þannig umferð um hálendið fylgir því líka annað, að umferðin vex væntanlega að sama skapi. Þá þarf að huga að því að stýra þeirri umferð og vara fólk þannig við að það geti farið með sem allra öruggustum hætti um hálendið. Það á ekki aðeins við um sjálfa vegina heldur og ýmislegt annað sem orðið getur mönnum að grandi á fjallvegum og einmitt var sérstaklega rætt við umræður um þá þáltill. sem nú hefur orðið tilefni umræðna.

Herra forseti. Fyrst og fremst er ég ánægður með að þessi till. hefur náð þeim tilgangi að vekja athygli á málinu og að verið er að vinna að framgangi markaðrar stefnu Alþingis í þessu efni.