16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

190. mál, umhverfismál

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þær upplýsingar sem hann gaf áðan. Þær eru einkar athyglisverðar í ljósi þess, eins og síðasti ræðumaður vitnaði nú reyndar til, að við höfum hlustað á þm. Sjálfstfl. flytja þáltill., sem einir átta þm. hvers flokks standa að, um stefnumótun í umhverfismálum, en síðan kemur hæstv. félmrh. og rekur mjög skilmerkilega að ekkert sé hægt að gera í þessum málum í ríkisstjórninni vegna þess að það strandi allt á ráðherrum Sjálfstfl. Þetta eru mjög merkilegar upplýsingar. Ég fagna því að það skuli þá liggja fyrir núna hvar, hvernig og hvers vegna þetta mál hefur verið stöðvað. Hæstv. menntmrh., sem hefur kannske hluta af þessum málum á sinni könnu, hefur kannske eitthvað um þetta að segja. Mér þætti það ekki ótrúlegt. En hann á væntanlega eftir að lesa ummæli hæstv. félmrh. í þingtíðindunum. Þau voru athyglisverð.