21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

41. mál, orlofsdeild Póstgíróstofu

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra svaraði ekki minni fsp. um hvort yfirlýsing hefði fylgt því bréfi sem hann skrifaði undir. Ég ítreka þá spurningu hvort yfirlýsing hafi fylgt því bréfi sem hann undirritaði og sendi varðandi áframhald í orlofsdeild Póstgíró.

Það er verið að kenna aðilum vinnumarkaðarins um þetta kerfi. Þetta var samþykkt á Alþingi á sínum tíma. Hæstv. ráðherra veit að bæði fulltrúar Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins hafa lýst því yfir að þeir vilja breytingu á þessu kerfi. Það gerðist í þeirri nefnd sem sat að störfum undir formennsku manns sem hæstv. ráðherra skipaði. Þetta er hæstv. ráðherra kunnugt um.

Ég vísa því á bug að orlofsdeild Póstgíró hafi borgað bestu ávöxtunarkjör á landinu. Ég ætla að minna á í örfáum tölum að árið 1980-1981 borgaði Póstgíró 34% í ávöxtun, hefði átt að vera 47,99 skv. bestu ávöxtunarkjörum. Árið 1981-1982 borgaði Póstgíró 34%, hefði átt að borga 45,95% skv. bestu ávöxtunarkjörum. Orlofsárið 1982-1983 borgaði Póstgíró 57%, hefði átt að borga 83,55% samkvæmt bestu ávöxtunarkjörum. Þarna tel ég að Póstgíró hafi ekki staðið í stykkinu að borga þá ávöxtun sem best er. Þetta er rangt kerfi og það á að afnema. Hæstv. ráðherra veit það. Ég ítreka fsp.: Fylgdi engin yfirlýsing bréfinu sem ég vitnaði til áðan?