17.12.1986
Efri deild: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

253. mál, heilbrigðisþjónusta

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Lög um heilbrigðisþjónustu, sem við erum að ræða hér, voru sett á Alþingi 1973. Síðan eru að mér telst 13 ár og ríflega það. Þessi lög ollu byltingu í skipan og uppbyggingu allra heilsugæslumála hér á landi.

Þessi lög eru hvað skipulag varðar komin í framkvæmd alls staðar á landinu nú nema í þessum tveimur umræddu sveitarfélögum, Reykjavík og Garðabæ. Ég verð að segja það að ég er ekkert hissa á því þó vissir annmarkar hafi verið á því að hverfa frá grónu kerfi hér í borg varðandi læknisþjónustu en þó hygg ég að sá óeðlilegi dráttur sem hefur orðið á þessu hér hljóti að stafa að vissu marki af einhverjum annarlegum sjónarmiðum eða hagsmunum sem þar koma inn í. Það er í raun og veru óhæfa að við skulum enn, svo löngu eftir gildistöku laganna, vera með sérstaka undanþágu fyrir þessi tvö læknishéruð. Það hefur áður verið, eins og núna var af hæstv. ráðh. lofað bót og betrun, sagt að frv. væri á leiðinni sem mundi leiðrétta þetta og koma þessari skipan í varanlegt horf einnig hér. Ég verð hins vegar að játa það að eins og mál standa nú er óhjákvæmilegt að standa með þessari frestun einu sinni enn og jafnvel til viðbótar því að trúa orðum hæstv. ráðh. núna um það að þetta mál sé það vel á veg komið að úr verði efndir, en ekki eins og verið hefur undanfarin ár að það hefur verið tilkynnt hér úr ræðustól að málin væru að leysast en ekkert gerst.

Þetta er minn fyrirvari að láta í ljós óánægju mína með það að enn skuli þetta eftir liggja í okkar heilsugæslukerfi.