17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

211. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kem hér fyrst og fremst til að fagna þessu máli og því víðtæka samkomulagi sem náðst hefur milli fjölmargra aðila um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Að baki þessu máli og þeirra þriggja fylgifrv., sem með því fylgja, liggur mikil vinna. Hana hafa innt af hendi fulltrúar frá fjmrn., Sambandi ísl. sveitarfélaga og þeim stéttarfélögum sem um ræðir. Hér eiga margir aðilar hlut að máli, samstaðan er mjög víðtæk og henni vil ég fagna hér.

Það er náttúrlega ljóst þegar um samkomulagsmál er að ræða að allir hafa þurft að láta nokkuð af sínum ýtrustu óskum og vitaskuld er þetta frv. því marki brennt.

Ég vil þó láta þess getið hér að það eru hvorki meira né minna en 38 stéttarfélög ríkisstarfsmanna sem með þessu frv. fá bæði samningsrétt og verkfallsrétt. Hér er stigið gríðarstórt skref fram á við til að tryggja réttindi fjölda fólks sem fram til þessa hefur ekki haft þann rétt að semja sjálft um kaup sitt og kjör sín. Þessu skrefi fagna ég innilega.