17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

228. mál, Kjaradómur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hl. fjh.og viðskn. í þessu máli. Það er að finna á þskj. 368. Eins og þar kemur fram hef ég ýmislegt við þetta frv. að athuga þótt þar komi jafnframt fram að þar sem frv. er hluti af því víðtæka samkomulagi milli ríkis, sveitarfélaga og starfsmanna þeirra sem við höfum verið að ræða og ég tel ákaflega mikilvægt mun ég hvorki flytja brtt. við frv. né leggja til að það verði fellt heldur sitja hjá við afgreiðslu þess. Ég hef ýmsar athugasemdir við það að gera og ég vil láta þær koma fram.

Í fyrsta lagi finnst mér athugavert að framkvæmdarvaldið skipi tvo fulltrúa í fimm manna kjaradóm á meðan viðsemjendur þess, samtök opinberra starfsmanna, eiga þar engan fulltrúa. Mér hefði fundist sýnu eðlilegra að annaðhvort ættu báðir aðilar þar fulltrúa eða þá að dóminn skipuðu eingöngu þeir þrír dómendur sem Hæstiréttur skipar í dóminn samkvæmt frv.

Í öðru lagi tel ég ekki eðlilegt að Kjaradómur ákveði kjör allra þeirra sem eru tilteknir í 2. gr. frv. Þetta er stór hópur og fer sífellt vaxandi og tel ég það tvímælalaust ekki af hinu góða. Ég tel eðlilegra að kjör allmargra sem þar eru ráðist í kjarasamningum þeirra stéttarfélaga sem við eiga því að margir sem þar eru geta auðveldlega tilheyrt ákveðnum stéttarfélögum.

Það er heldur ekki ljóst af frv. hvaða viðmiðunarreglur eru notaðar þegar ákveðið er hverjir skuli fylla þann hóp sem 2. gr. frv. kveður á um og hverjir ekki og finnst mér mjög slæmt að ekki skuli vera sett fram svo mikið sem vinnuregla um það.

Að sjálfsögðu eru aðilar í þessum hópi sem hafa þá sérstöðu að þau störf sem þeir gegna eiga tæplega heima í stéttarfélagi. Þar get ég nefnt ráðherra, sendiherra, sýslumenn og fleiri sem tilteknir eru í 2. gr. frv. og þarna eru einnig aðilar sem miklu varðar að séu óháðir því að standa í launadeilum. Þessi störf eru þó ekki ýkja mörg og eins og ég sagði áðan er ásóknin í þennan hóp nokkurn veginn stöðug. Það er ekki lengra síðan en á 106. löggjafarþingi, ef ég man rétt, að afgreitt var sérstakt frv. þar sem inn voru teknir allnokkrir aðilar í þennan hóp þannig að hann fer óðum og ört stækkandi frá einu þingi til annars. Ég lagðist þá gegn því frv. og samsinna mér þá var hv. 8. þm. Reykv. sem nú hefur skipt um skoðun hér á. Við þessu virðist sem sé ekkert fá spornað, hópurinn vex og ekki birtast heldur neinar viðmiðunarreglur um það hverjir eru teknir þarna inn og hverjir ekki.

Því hefur verið haldið fram að stéttarfélögin vilji fullt eins vel losa sig við ýmsa yfirmenn og hátt launaða stjóra yfir í Kjaradóm því þá gefist meira svigrúm til betri samninga fyrir stéttarfélögin. Ég tel það ákaflega hæpna röksemd því að eins og við vitum hafa þeir sem skipa efstu launaflokkana tilhneigingu til að toga aðra upp í kjarasamningum frekar en pressa þá niður þannig að ég tel þessi rök heldur haldlítil.

Það má líka benda á það að þegar yfirmaður stofnunar, sem hefur e.t.v. svipaða eða hliðstæða menntun og þorri starfsmanna stofnunarinnar, fær sérstaka afgreiðslu sinna kjaramála með því að Kjaradómur fjalli um þau á hann ekki samleið með þeim sem hann vinnur með. Þetta stuðlar því að aðskilnaði á milli yfirmanns og starfsmanna og viðheldur jafnframt því pýramídalaga valdakerfi sem viðgengst í flestum stofnunum. Ef allir starfsmenn stofnunar, þeir sem gegna yfirmannastöðum jafnt sem aðrir, gengju saman til sinna kjarasamninga má vænta þess að samstaða og skilningur manna á störfum hvers annars sé meiri en ella. Þess vegna held ég að það sé ákaflega slæmt þegar verið er að færa yfirmenn og stjóra hvers kyns undir Kjaradóm í stað þess að þeir taki laun samkvæmt þeim kjarasamningum sem þau stéttarfélög sem þeir gætu tilheyrt semja um hverju sinni.

En eins og ég sagði í upphafi máls míns, virðulegi forseti, geri ég ekki frekari ágreining um þetta mál. Þetta er hluti af því samkomulagi sem náðst hefur milli ríkis, sveitarfélaga og starfsmanna þeirra og þar hafa ekki allir fengið sínar ýtrustu óskir uppfylltar eins og eðlilegt er þegar um jafnvíðtækt samkomulagsmál er að ræða. Ég vil ekki spilla fyrir þessu samkomulagi eða raska því á neinn hátt og því legg ég ekki til að þetta frv. verði fellt heldur mun ég sitja hjá við afgreiðslu þess.