17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

228. mál, Kjaradómur

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég skrifaði undir álit meiri hl. nefndarinnar með fyrirvara. Ég var á sínum tíma, þegar þetta frv. var fyrst lagt fram, mjög eindregið á móti því og þar komu margir hlutir til. Í fyrsta lagi kannske hvernig þetta bar að en einnig það að hvorki þá né nú hefur verið tekið á því máli að aðgreina starfsmenn hins opinbera skýrt og greinilega í embættismenn og starfsmenn.

Það er mjög eðlilegt, að mínu mati, að vissir menn starfandi í opinberum stöðum hafi stöðu embættismanna og skyldur sem þá hugsanlega felast m.a. í því að þeir geti ekki farið í verkföll né annað slíkt en þessir hlutir verða að vera mjög greinilegir og óvefengjanlegir. Í því frv. sem er fylgifrv. með þeim fjórum frv. sem verið er að afgreiða um breytingar á réttindum og skyldum opinberra starfsmanna er ekki tekið á þessum hlutum enn eina ferðina og það hefur komið áður fram í máli mínu, að ég held, að það sé reyndar hvergi á Vesturlöndum jafnógreinilega gengið frá þessum málum eins og nú er hér á Íslandi. Þess vegna skrifaði ég undir nál. um þau frumvörp sem hér er verið að afgreiða og þessu máli tengjast með fyrirvara. Mér er sjálfum með öllu óskiljanlegt hvernig menn geta samið svona af sér réttindi meira og minna. En þetta eru einu sinni samningar sem búið er að gera við hlutaðeigandi aðila og ekki hægt í sjálfu sér að vera á móti þeim þó að maður eigi erfitt með að átta sig á því hvers vegna menn gangast undir slík ok eins og hér eru í raun og veru lögbundin með þeim lögum sem nú tengjast þessum samningum.