17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

233. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Hv. félmn. mun sjálfsagt skoða þetta frv. félmrh. og skila því í tæka tíð hingað inn í hv, deild þannig að það fái afgreiðslu á þinginu fyrir jól. En einhvern veginn minnir mig að hæstv. félmrh. hafi gefið okkur fyrirheit um að hér inni á hv. Alþingi ættum við von á að fá frv. um tekjustofna sveitarfélaga, þ.e. að afrakstur starfs nefndarinnar og undirbúningsstarfs, sem hefur verið unnið í ráðuneytinu að undanförnu og okkur er kunnugt um, mundi skila sér hingað inn á þing. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðh. hvað því máli líði, hvort við eigum von á að sjá það á síðustu dögum þingsins núna fyrir jól eða þá í hvaða tíma.