17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (1675)

233. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Vegna fsp. hv. 4. þm. Vesturl. tek ég fram að það er rétt. Það hefur komið fram að, eins og allir vita, nokkurn tíma hefur tekið að endurskoða lög um nýja tekjustofna sveitarfélaga og ganga frá því. Frumvarpið fullmótað liggur í félmrn. og er meiningin að leggja það fram á hv. Alþingi á þessu þingi. Hins vegar voru skipaðar tvær nefndir til að fjalla um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og milli ráðuneytanna nú á síðustu haustdögum og gera þar ákveðnar tillögur. Inn í það mál komu svo breytingarhugmyndir á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Á meðan þær nefndir voru að ganga frá sínum tillögum þótti skynsamlegt að hinkra við með framlagningu frv. og einnig hefur komið inn í það núna sú vinna sem er í gangi um frv. til l. um staðgreiðslukerfi skatta. Nefndin sem samdi frv. um tekjustofna sveitarfélaga mun þurfa aðeins að koma saman til að fjalla um þær hugmyndir sem þar koma fram og snerta frv. Þar af leiðandi þótti okkur skynsamlegt að draga að leggja frv. fram þar til eftir þinghlé sem verður væntanlega síðari hlutann í janúar.

Ég vil láta þetta koma fram, virðulegur forseti.