17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstvirtur forseti. Eins og fram kom við 2. umr. var mál þetta ekki nægilega unnið til þess að hægt væri að ljúka 3. umr. og því var jafnframt lýst yfir að framhaldsnefndarálit mundi berast frá meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. svo og nál. frá minni hl. nefndarinnar á milli umræðna. Þessi skjöl hafa nú verið fram lögð og koma til umræðu.

Eftir 2. umr. hefur nefndin komið saman á ný, oftar en einu sinni að sjálfsögðu, til að ræða þau atriði sem óafgreidd voru. Nú mun ég reyna að gera stutta grein fyrir þeim erindum og fskj. sem sýna í meginatriðum áhrif þeirra till., sem meiri hl. mælir með að samþykktar verði, t.d. á húsbyggingasjóði, framkvæmdasjóði, lántökur innanlands og erlendis.

Í fyrra nál. meiri hl. er getið þeirrar óvissu sem nú ríkir, eða ríkti í öllu falli, í kjölfar nýafstaðinna kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins fyrir efnahagsástandið á næsta ári. Endanleg afstaða var þó ekki tekin til t.d. lántökuheimilda fyrir Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, Hitaveitu Akureyrar og Fjarhitun Vestmannaeyja, þar sem ekki lágu fyrir tillögur nefndar sem unnið hefur á vegum hæstv. fjmrh. og iðnrh.

Sýnt þykir að kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins muni hafa veruleg áhrif á fjárhag ríkissjóðs eins og öllum er raunar kunnugt. Þar vega þyngst óhjákvæmilegar hækkanir bóta lífeyristrygginga, takmörkun á gjaldskrárhækkunum ríkisfyrirtækja og að horfið hefur verið frá álagningu orkuskatts. Allt bendir því til verulega aukins halla á ríkissjóði þrátt fyrir hagstæð skilyrði í þjóðarbúskap okkar. Það verður ekki litið burt frá því að afla þarf ríkissjóði fjármagns til að mæta auknum halla, en þar er ekki um að ræða nýja skatta heldur aukið lánsfé.

Í grg. frá aðilum vinnumarkaðarins var mælst til þess að ekki yrði aukið við erlendar lántökur ríkissjóðs við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga. Jafnframt var þar lagt til að erlendar lántökur atvinnuveganna yrðu lækkaðar um 1 milljarð 130 millj. kr. frá því sem frv. til lánsfjárlaga miðaði við og því yrði mætt með skuldabréfakaupum af lífeyrissjóðunum.

Nýtt mat á ráðstöfunarfé lífeyrissjóða á árinu 1987 bendir til að það nemi 6 milljörðum 850 millj. kr. á áætluðu meðalverði ársins. Það hefur verið ráðgert að 55% af því rynnu til skuldabréfakaupa lífeyrissjóðanna af húsbyggingasjóðum og auk þess um 40 millj. til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Óráðstafað fjármagn lífeyrissjóðanna nemur því 3 milljörðum og 45 millj. kr., en til þess hefur verið mælst við sjóðina að hluti þess rynni til skuldabréfakaupa af ríkissjóði eða sem nemur 1300 millj. kr. og 700 millj. kr. til atvinnuvegasjóðanna eins og fram kemur á fskj. VI með þessu framhaldsnefndaráliti. Er þetta gert annars vegar til að mæta viðbótarhalla ríkissjóðs og hins vegar til að draga úr erlendum lántökum atvinnuvegasjóðanna. Ljóst er að með þessu eykst eftirspurn á innlenda lánsfjármarkaðnum sem kann að leiða af sér hækkun vaxta og breytt lánskjör nema rýmkað verði verulega um peningamagn á markaði, t.d. með því að afnema bindiskyldu Seðlabanka og að ríkisvaldið og Seðlabanki sjái til þess að eðlilegt magn peninga sé á markaði. Raunar mun það nú í bígerð loks að rýmka um bindiskyldu Seðlabanka í öllu falli.

Niðurstöður vinnuhóps fjmrh. og iðnrh. gefa tilefni til að endanleg ákvörðun um lausn á fjárhagsvanda Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, Hitaveitu Akureyrar og Fjarhitun Vestmannaeyja verði leyst með ákveðinni till. sem við flytjum á þskj. 371. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjármálaráðherra er fyrir hönd ríkissjóðs og að fengnu samþykki fjvn. heimilt að semja við Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, Hitaveitu Akureyrar og Fjarhitun Vestmannaeyja um ráðstafanir til að bæta fjárhag veitnanna í framtíðinni.“

Eins og af þessum orðum sést er þessi heimild víðtæk, en hins vegar hefur ekki verið hægt að skilgreina nánar í hverju þessir samningar muni felast.

Þá er að auki lagt til að tekin verði inn lánsfjárheimild fyrir lántöku Hitaveitu Akureyrar að fjárhæð 1 milljarður og 300 millj. til að skuldbreyta lánum sem fyrirtækið hefur fengið en ónotaðar ríkisheimildir veitunnar - ég tala um Hitaveitu Akureyrar - frá fyrri árum nema um 1150 millj. kr. miðað við núverandi gengi og á að falla niður um næstu áramót. Því er í raun lagt hér til að veitt verði ný viðbótarheimild um 150 millj. kr. en gamla heimildin framlengd.

Þá er í brtt. vikið að Rafveitu Siglufjarðar og þar segir, með leyfl hæstv. forseta:

„Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að yfirtaka allt að 30 millj. kr. af langtímaskuldum Rafveitu Siglufjarðar vegna niðurfellingar á verðjöfnunargjaldi á raforku, enda gefi Rafveita Siglufjarðar þar á móti út skuldabréf til handa ríkissjóði að fjárhæð 15 millj. kr.“

Í brtt. meiri hl. við 2. umr. féll niður nafn Hitaveitu Rangæinga í 36. gr. og leiðrétting er nú gerð í brtt. meiri hl.

Það er kannske rétt að skjóta inn í um Framkvæmdasjóð að á árinu 1986 hefur Framkvæmdasjóður skuldbreytt um 34 millj. dollara af erlendum skuldum sínum. Áhrif þessa leiða til um 280 millj. kr. lækkunar á erlendum afborgunum sjóðsins frá því sem áætlað var í lánsfjáráætlun, þ.e. að afborganir færast allt fram til ársins 1991 og það rýmkar þess vegna um lausafé hjá sjóðnum. Ráðgert er að nýta þetta svigrúm til að draga úr lántökum Framkvæmdasjóðs frá fyrri áætlun. Það er lagt til að lækka lántökurnar um alls 164 millj. kr., þar af erlendar lántökur um 100 millj. kr. og innlendar um 64 millj. Þrátt fyrir þessar ráðstafanir er ljóst að sjóðurinn hefur enn um 100 millj. kr. sem hann gæti notað til að greiða niður erlendar skuldir sínar.

Miðað við framangreindar till. meiri hl. nema heildarlántökur opinberra aðila, fjárfestingarlánasjóða og atvinnufyrirtækja 17 milljörðum 960 millj. kr. Ráðgert er að 9 milljarða 745 millj. kr. verði aflað innanlands og 8 milljarða 215 millj. kr. með erlendum lántökum.

Á þskj. 377 flyt ég brtt. við 28. gr., sem áður var 27., sem varðar tekjur af aðflutningsgjöldum af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum sem renna skyldu skv. frv. í ríkissjóð á árunum 1986 og 1987. Felur sú till. í sér að þessar tekjur renni til Útvarpsins á árinu 1986 og mun það vera ærin upphæð, líklega talsvert á annað hundrað milljónir. Mér er ljóst að hér eru nokkrir hv. þm. sem vilja að þetta fé renni til Útvarpsins einnig á árinu 1987. Hér er komið á móts við þennan vilja manna, enda ærinn fjárhagsvandi hjá Ríkisútvarpinu, en lengra hefur ekki á þessu stigi verið talið unnt að ganga og þess vegna flytjum við við þessa umræðu brtt. þessa efnis.

Þá vil ég geta þess að málefni fatlaðra hafa verið til sérstakrar umræðu og nú hefur hæstv. fjmrh. lýst því yfir að upphæð sú sem þangað renni muni hækka um 30 millj. kr. við 3. umr. fjárlaga. Þá kemur frv. þetta aftur til okkar, það gerir það í öllu falli, og þess vegna er ekki flutt brtt. nú við frv. heldur beðið eftir afgreiðslu fjárlaganna í Sþ. Þá mun þessi breyting verða gerð.

Þess vil ég geta um Póst og síma, þau gjöld sem átti að taka af honum, að þau munu ekki verða tekin vegna þess að ekki eru fyrirhugaðar gjaldskrárbreytingar sem nægja til þess að það sé unnt að gera.

Ég hygg að ég hafi þá farið yfir helstu atriði í þessum brtt. og að varla sé þörf á nánari skýringum, en af því að hér eru nokkrir þm. í hliðarsölum og ég hafði hugsað mér að varpa fram spurningum til nokkurra hv. alþm. þætti mér vænt um að þeir litu inn í gættina ef þeir gætu komið því við.

Þannig er mál með vexti að við 2. umr. þessa máls varpaði ég fram þýðingarmikilli spurningu til íhugunar fyrir hv. þingdeildarmenn milli umræðna. Af því tilefni að nefnd var Einsteins-kenning og skemmtileg samlíking um að komandi kynslóðir mundu þurfa að greiða skuldir sem ríkissjóður stofnar til, eitthvað á þessa leið, og það er rétt að ærnar eru þær skuldir sem ríkissjóður er að stofna til, innlendar skuldir, og hefur stofnað til, þá sagði ég eitthvað á þessa leið:

Ef þessar skuldir eru innlendar hygg ég að menn geti í það ráðið hvort þessar byrðar verði þungbærar eða ekki. Ef komandi kynslóð á að borga þessa peninga hljóta einhverjir að taka við þeim. Það hljóta einhverjir að vera eigendur, einhverjir að vera kröfuhafar ef skuldarar eru fyrir hendi. Þess vegna væri gaman að hugleiða það til næsta fundar hvort einhver vildi segja mér frá því hver það væri sem fengi þessa peninga í hendur, þessa miklu fjármuni í hendur, ef það eru komandi kynslóðir sem eiga að greiða féð. Spurningin er: Hver tekur við milljörðunum sem komandi kynslóð á að greiða vegna innlendra skulda ríkissjóðs?

Við þessa umræðu langar mig til að endurtaka þessa spurningu: Hver fær þá peninga í hendur sem komandi kynslóð reiðir af höndum? - Ég endurtek: Hver fær þá peninga í hendur sem komandi kynslóð reiðir af höndum?

Nú bíð ég spenntur eftir svörum allra flokka og það hlýtur þjóðin öll að gera, sérstaklega þeir sem eru að vaxa úr grasi, „komandi kynslóð“. Varla getur nokkur sá sem í alvöru fæst við stjórnmál vikið sér undan því að svara svo gífurlega þýðingarmikilli spurningu. Sjálfur mun ég svara spurningunni síðar í umræðunni, enda finnst mér svarið liggja í augum uppi þegar vafningalaust er spurt. Og svörin hér ættu ekkert að þurfa að lengja umræðuna. Það er hægt að svara með einu orði, en kannske gleggra að hafa þau tvö.

Ég legg síðan til að brtt. meiri hl. verði hér samþykktar og málið afgreitt til hv. Nd.