21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

Síldarsölusamningar við Sovétríkin

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda að hafa vakið máls á þessu stórmáli á Alþingi og mér þykir gott að hæstv. viðskrh. hefur fullvissað þingheim um að hann og ríkisstjórnin muni gera sitt til þess að úr þeim erfiðleikum geti greiðst að svo miklu leyti sem við fáum því ráðið í sambandi við saltsíldarviðskiptin við Sovétríkin.

Það eru auðvitað fleiri viðskipti milli Íslands og Sovétríkjanna sem hér er einnig um að ræða og það er vel að menn átti sig á því um hversu mikilvægan markað er hér að ræða. Það er ekki alltaf, finnst mér, að sá skilningur komi fram hjá aðilum sem ættu þó að vita og sjá hversu þýðingarmikil þessi viðskipti í reynd eru.

Hér er talað um tap fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Það er rétt að það er stórt og tapið fyrir einstaklingana, þá mörgu sem vinna við saltsíldina, er auðvitað stórfellt. Á Austurlandi einu saman eru það a.m.k. um 700 manns sem hafa fasta vinnu mánuðum saman við saltsíldarverkun og þar fyrir utan koma sjómennirnir sem verið er að lækka síldarverðið hjá samkvæmt ákvörðunum nýverið. Meiri hlutinn af þessu fólki er konur sem nota þetta sem íhlaupavinnu eða jafnvel einu vinnuna utan heimilis á árinu. Hér er því um stórfellt áfall fyrir viðkomandi einstakling að ræða ef ekki verður ráðin bót á fyrr en seinna.

Þess er auk þess að geta að viðkomandi, margir hverjir, sennilega mikill meiri hluti, eru algerlega réttindalaust fólk. Menn hafa ekki neinar kauptryggingar, sem að þessum störfum hafa unnið, nema þeir hinir sömu hafi starfað hjá viðkomandi fyrirtæki og séu á fastráðningarsamningi. Sjómennirnir eru aðeins með tryggingu upp á um 35 þús. kr. á mánuði. Hér er því um mjög alvarlegt mál að ræða sem hefði auðvitað þurft að liggja mjög skýrt fyrir fyrir löngu, en það hefur ekki verið á okkar valdi og ég er ekki með neinar ásakanir í garð stjórnvalda í þessu sambandi.

Herra forseti. Það liggur fyrir viðskiptasamningur við Sovétríkin og sérstök bókun á grundvelli samningsins frá 1953 í þessum efnum sem kveður á um að þessi viðskipti eigi að treysta undirstöðu langtímasamvinnu milli ríkjanna, eins og það er orðað í þessari bókun. Þar er einnig gert ráð fyrir því að teknir verði upp frekari samningar um útfærslu einstakra þátta. Það er því mjög eðlilegt að íslenskir ráðamenn óski eftir viðræðum við háttsetta aðila í Sovétríkjunum um þessi mál á grundvelli viðkomandi samnings.

Það er fleira en söltun síldar sem um er að ræða. Kvótinn á síld er um 65-70 þús. lestir og þó að við fylltum upp í rammann í viðskiptum við Sovétríkin eru það aðeins um rösklega 20 þús. tonn sem þar er um að ræða. Frystingin gæti svarað til um 12 þús. tonnum af síld. Öll síldarsala, þ.e. söltuð síld, til annarra landa er eitthvað í kringum 8 þús. tonn þannig að það er mjög verulegt magn sem er þarna umfram. Það er auðvitað eðlilegt að spurt sé: Á að nýta þetta magn? Hverju gera stjórnvöld ráð fyrir í því efni? Gera menn ráð fyrir að afgangurinn verði veiddur í bræðslu? Þannig eru margar spurningar í sambandi við síldveiðarnar sem nú eru hafnar.

Herra forseti. Við hljótum að leggja á það afar þunga áherslu allir hér á Alþingi, og ekki síst fulltrúar þeirra kjördæma sem hér eiga mest í húfi frá Austurlandi til Reykjaness, að allt verði gert sem unnt er til að leysa þann hnút sem blasir við.