17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu mjög mikið, en vil koma að örfáum atriðum varðandi frv. til lánsfjárlaga sem hér er til umræðu.

Ég vil að gefnu tilefni koma inn á 27. gr. frv. í upphafi máls míns, en greinin fjallar um tekjur vegna aðflutningsgjalda af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum sem gert var ráð fyrir að mundu renna í ríkissjóð beint en ekki til Ríkisútvarpsins og það ákvæði væri afturvirkt skv. frv. Það urðu miklar umræður um þessa grein við 1. umr. frv. og við framsóknarmenn í þessari hv. deild gagnrýndum nokkuð þetta ráðslag. Nú hefur orðið samkomulag um að þetta ákvæði verði ekki afturvirkt og þessar tekjur á yfirstandandi ári renni til Ríkisútvarpsins, enda er hér um háar fjárhæðir að ræða og hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Mun hér vera um allt að 130-140 millj. að ræða á þessu ári vegna þess að innflutningur er mjög mikill. Ég geri grein fyrir að við höfum fallist á þá brtt. sem formaður fjh.- og viðskn. lýsti áðan.

Almennt talað um frv. ber það keim af því að ríkissjóður verður sýnilega afgreiddur með greiðsluhalla á þessu ári. Málflutningurinn hefur verið þannig hjá stjórnarandstöðunni að deilt hefur verið á þau skerðingarákvæði sem hafa verið og eru í þessu lánsfjárlagafrv. Það eru vissulega mörg þörf mál sem fá ekki sitt lögboðna framlag eins og hér hefur fram komið. Að hinu leytinu er deilt á of miklar lántökur og skuldasöfnun og óráðsíu og er erfitt að koma þessu öllu heim og saman.

Það er þó ekki því að neita að hér hafa komið fram brtt. til lækkunar frá Alþfl. Þær eru dálítið merkilegar og ég get ekki orða bundist yfir þeim. Þar er lagt til að allir atvinnuvegasjóðirnir verði skertir mjög verulega og einn þó langmest og það er Byggðastofnun. Ég hlýt að undrast það hugarfar sem liggur þar að baki því ég hélt að það væri einmitt ekki vanþörf á að sú stofnun tæki verulega á í uppbyggingu atvinnulífsins um þessar mundir og ég hef verulegar athugasemdir við það að sú stofnun eigi sök á óarðbærum fjárfestingum í landinu.

Formaður fjh.- og viðskn. bar fram fyrir þingheim samviskuspurningu og ég mun leitast við að svara henni. Ég hef hugsað um þetta nokkuð því að þetta hefur oft borið á góma í fjh.- og viðskn. og milli okkar hv. 4. þm. Norðurl. v. Málið er einfalt. Skattgreiðendur komandi kynslóðar munu borga þessar opinberu skuldir og þeir lánasjóðir sem lánin eru tekin hjá munu taka við. Ef það er tekið hjá innlendum lánasjóðum munu þeir að sjálfsögðu taka við þeim greiðslum.

Hins vegar held ég að áhyggjur okkar af þessum skuldum hljóti að fara eftir því hvort við gætum haldið stöðugleika í efnahagsmálum, hvort við gætum haldið verðbólgunni niðri og hvort við gætum byggt upp nægilega öflugt atvinnulíf til þess að fólkið hafi kaupgetu og greiðslugetu til að greiða þessar skuldir. Það er aðalatriðið að við getum byggt nægilega upp fyrir framtíðina til að greiða þessar skuldir, þá held ég að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því, og ef við getum haldið stöðugleika í efnahagslífinu og haldið lágu verðbólgustigi. Ef við missum verðbólguna upp aftur þurfum við að hafa verulegar áhyggjur af þessum skuldum hvort sem þær eru innlendar eða erlendar. En við byggjum að sjálfsögðu ekki upp atvinnulífið í landinu ef við samþykkjum brtt. um að skera alla atvinnuvegasjóði niður við trog. Þó að menningin sé góðra gjalda verð og félagsmálin þá verður aldrei velferð í þjóðfélaginu nema atvinnulífið sé traust. Það er undirstaðan og á öflugu atvinnulífi verðum við að byggja okkar velferðarþjóðfélag. Ég vona að okkur takist það og ætla að láta það verða mín lokaorð að sinni.