17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hv. 8. þm. Reykv. hefur þegar greint frá áliti minni hl. fjh.- og viðskn., sem ég rita undir, á frv. til lánsfjárlaga og einnig hef ég rætt frv. nokkuð við 2. umr. þess. Ég ætla því ekki að verða langorð um það nú.

Eins og ég hef áður rætt er erlend skuldasöfnun, innlend lántaka og halli ríkissjóðs í ógnvekjandi stærðargráðum þessa stundina og virðist ekkert lát vera á skuldasöfnuninni.

Í hádeginu í dag fékk fjh.- og viðskn. framreikninga á þessu lánsfjárlagafrv. vegna áhrifa síðustu kjarasamninga á stærðir í ríkisfjármálunum og þá fengum við einnig aðrar þær breytingar sem orðið hafa á þessu frv. á milli 2. og 3. umr. Það var vitað fyrir fram að þessar upplýsingar kæmu ekki fyrr. Ég tek skýrt fram að ég er ekki að gagnrýna hv. formann fjh.- og viðskn. fyrir að hafa ekki gefið nefndarmönnum lengri tíma til að íhuga þessar upplýsingar. Það er ekki við hann að sakast í því efni og við nefndarmenn vissum fyrir fram að ekki mundi verða meiri tími til að íhuga þessa hluti en raun hefur orðið á. En staðreyndin er sú að það er ekki nokkur leið meðfram fundarsetum í allan dag að kynna sér nákvæmlega þær tilfæringar sem orðið hafa á frv. og því er til lítils að fjalla mikið um þær nú.

Í þessari málsmeðferð er á ferðinni gamalkunn og að mínu viti ámælisverð stjórnunaraðferð í þinginu. Upplýsingar, tillögur og málin sjálf ber oft svo brátt að að hv. þm., bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, gefst lítill eða enginn tími til að kynna sér málin til nokkurrar hlítar og því ekki heldur færi á að fjalla um þau af einhverjum kunnugleika. Þetta er að sönnu óþolandi, ekki síst fyrir hv. stjórnarþm. sem bera ábyrgð á samþykkt frumvarpa eins og þess sem er nú til 3. umr. og sem þeir hafa haft lítinn tíma til að skoða grannt í þeirri mynd sem það er nú.

Ég samþykki ekki þetta frv. og kvarta því ekki undan því að þurfa að bera ábyrgð á einhverju sem ég hef ekki getað kynnt mér nægilega vel heldur undan því að þessi skammi tími kemur í veg fyrir að ég geti komið öllum þeim sjónarmiðum á framfæri sem ég hefði viljað við umræðu þessa máls. Þannig hefta þessi vinnubrögð í raun það lýðræði sem hv. Alþingi grundvallast á og því hvorki get ég né vil ég venjast.

Áætlaðar lántökur ríkisins næsta ár eru gífurlegar. Baggarnir, sem verið er að binda fyrir eftirkomendurna að bera, léttast ekki heldur þyngjast þeir. Þetta atriði hefur orðið hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni hugstætt því að hann hefur beðið menn um að svara sér því, ef ég tók rétt eftir, hverjir fái endurgreitt það fé sem ríkissjóður tekur að láni innanlands, m.a. hjá lífeyrissjóðunum. Ég vona að þetta sé réttur skilningur á spurningu hv. þm. Það má snúa þessari spurningu við og spyrja sem svo: Hverjir erfa landið og hvað er það sem menn erfa?

Spurning hv. þm. mun vera sprottin af því sem ég sagði við 2. umr. þessa máls um auknar erlendar lántökur handa komandi kynslóðum að pínast undir og sennilega er þar dálítill misskilningur á ferðinni því að þar var ég að ræða um erlendar lántökur. Hvað þær varðar er enginn vafi á því að þar erfa komandi kynslóðir aðeins skuldirnar og ekkert annað. Endurgreiðslurnar fá erlendir lánardrottnar. Og það eru engar smáskuldir sem þarna er um að ræða. Skv. Hagtölum Seðlabankans voru erlendar skuldir opinberra aðila og lánastofnana rúmir 64 milljarðar í júní s.l. og hafa aukist á milli ára.

Hvað innlendar lántökur varðar horfir málið ekki mikið öðruvísi við. Fyrsta spurningin hvað varðar innlendu lántökurnar er sú hvort þrautpíndum ríkissjóði, sem nú er rekinn með gríðarlegum halla ár eftir ár, tekst nokkurn tíma að greiða þetta fé til baka. Ég held að það sé full ástæða til að efast um að þarna verði einhverjar verulegar endurgreiðslur því eins og hér hefur komið fram munu þær upphæðir, sem hér er áformað að taka að láni innanlands, vaxa gríðarlega á lánstímanum þannig að þetta eru hrikalegar upphæðir þegar allt kemur til alls. Ef ríkissjóði tekst ekki að greiða þetta til baka fær vitaskuld enginn neitt. Það er alveg ljóst. Ef ríkissjóði tekst að standa í skilum og greiða þessi innlendu lán er deginum ljósara að komandi kynslóðir skattgreiðenda munu fá í sinn hlut að standa undir þeim tekjum ríkissjóðs sem þarf til að greiða þær skuldir sem hann ætlar sér að stofna til núna innanlands og að þeir stóru árgangar, sem nú eru á besta aldri og eiga raunar afskaplega fá börn og sífellt færri börn, m.a. vegna þess að íslenskt þjóðfélag er ekki beinlínis skipulagt með tilliti til barna, þessir fámennu árgangar, sem koma til með að erfa landið og skuldirnar, koma einnig til með að standa undir þeim greiðslum sem þarf til að ríkissjóður geti endurgreitt þessi innlendu lán. Þá verðum við og þeir sem eru nokkru eldri en ég sennilega öll komin á elliheimili og þurfum á lífeyri úr lífeyrissjóðunum að halda til að tryggja afkomu okkar. Þar með verða það þær kynslóðir sem nú eru að taka innlendu lánin sem á endanum fá þær endurgreiðslur sem til verður að dreifa, þ.e. þeir sem ætla núna að taka innlend lán til að reka ríkissjóð eru þeir sömu sem munu fá endurgreiðslurnar af lánunum í sinn hlut. Segja mætti mér að slíkur kynslóðaójöfnuður þekkist óvíða, á því eru allar líkur að sama kynslóðin njóti bæði lánanna og endurgreiðslnanna. Ég vona að með þessu hafi ég svarað spurningu hv. þm. fyrir mína parta.

Það er ýmislegt hægt að segja um þær hækkanir á þessu frv. og tilfærslur sem orðið hafa hér á milli umræðna. Niðurstaðan er þó ósköp einföld í rauninni. Skv. lánsfjárlagafrv. og fjárlagafrv. og lánsfjárlögum síðasta árs og fjárlögum síðasta árs er það stefna þessarar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum að auka og standa að hrikalegum lántökum eða skuldasöfnun, hvort orðið sem menn vilja nota. Það sýna verkin þótt orðin þeirra séu eitthvað töluvert í aðra veru oft og tíðum, en það eru vitaskuld verkin sem tala endanlega, ekki orðin tóm.

Eins og ég sagði hef ég áður rætt um helstu liði þessa frv. og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Ég trúi því að hv. þingdeildarmenn séu minnugir a.m.k. á það sem þeir vilja muna. Eins og hér hefur komið fram ítrekað er ekki aðeins um hrikalegar lántökur að ræða heldur bendir margt til að áætlanir frv. fái ekki staðist og óvíst hver leiðarendi þessara mála verður. Ég mæli ekki með samþykkt frv.