17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Í tengslum við efnahagsmálin hefur m.a. verið metið hvaða hætta stafar af mjög miklum framkvæmdum í okkar landi og að mati þeirra sérfræðinga sem til hafa verið kvaddir er þenslan sem hér er eitt það hættulegasta sem við eigum við að stríða. Þess vegna voru þegar á síðasta ári gerðar ráðstafanir til að draga úr ýmsum framkvæmdum ríkisstofnana. Hjá ýmsum tókst það. Frestað var t.d. framkvæmdum við Blöndu. Ég get ómögulega fallist á að við séum minni landsbyggðarflokkur þótt við höfum frestað framkvæmdum við Blöndu.

Ríkisútvarpið er að byggja mikla og glæsilega byggingu og eflaust þörf á henni þó að sæmilega sé fyrir Ríkisútvarpinu séð þar sem það er, en þörf er á því húsnæði fyrir annað. Það var skoðun ríkisstjórnarinnar þegar í fyrra að m.a. af þessum ástæðum, mikillar þenslu á byggingarmarkaðinum, ekki síst hér í Reykjavík, væri ástæða til að hægja á þeirri byggingu. En Ríkisútvarpið fór ekki að ráðum ríkisstjórnarinnar heldur, að því er ég best veit, sló sér lán í Landsbankanum og hélt áfram byggingarframkvæmdum. Þetta var ein af ástæðunum fyrir því að talið var óhætt og eðlilegt að draga nokkuð úr því fjármagni sem Ríkisútvarpinu er samkvæmt lögum um útvarpsrekstur ætlað í fjárfestingu. Hins vegar, að athuguðu máli og við meðferð málsins hér á þingi, hefur verið breytt nokkuð frá upphaflegri ætlun, því eins og hv. þm. er vitanlega kunnugt er nú gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið njóti þeirra tekna sem því voru ætlaðar á yfirstandandi ári. Þær eru töluvert meiri en áætlað var. Ef ég man rétt voru þær áætlaðar nokkuð yfir 40 millj. en verða 61 millj. eða um það bil. Mitt mat er að í bráð sé vel fyrir byggingarframkvæmdum Ríkisútvarpsins séð.

Ég get ómögulega fallist á að Framsfl. sé minni landsbyggðarflokkur þótt hann hægi á byggingarframkvæmdum í Reykjavík, a.m.k. kem ég því ekki heim og saman.

En ég vil jafnframt segja að að sjálfsögðu er lögunum ekki breytt. Það hefur verið miklu meiri innflutningur tækja en gert var ráð fyrir og tekjurnar því orðið meiri. Það er ekkert rangt við að endurskoða tekjuþörf Ríkisútvarpsins af þessum innflutningi með tilliti til hins almenna efnahagsástands í landinu og með tilliti til þarfa Ríkisútvarpsins fyrir fjárfestingu. Ég geri fastlega ráð fyrir að þegar Ríkisútvarpið þarf á þessum tekjum að halda, og ég geri reyndar ráð fyrir því að það verði á árinu 1988, verði þessi tekjustofn ekki skertur. Hins vegar liggur ekkert fyrir um ástand efnahagsmála þá. Þarna er eingöngu um að ræða tekjuskerðingu í eitt ár af þeim sökum sem ég hef nú rakið.