21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

Síldarsölusamningar við Sovétríkin

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli í þingsölum. Erindi mitt í þennan ræðustól var eingöngu að undirstrika alvöru málsins og mikilvægi þess að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að leysa það með þeim ráðum sem þau ráða yfir.

Það hefur verið rakið af þeim sem hafa tekið til máls í þessari umræðu að hér er um að ræða snaran þátt í atvinnulífi hinna dreifðu byggða við sjávarsíðuna á Austurlandi, Suðurlandi og á Reykjanesi. Hér er um að ræða mikið áfall fyrir sjómenn, verkafólk og þá sem reka söltunarstöðvar í landi. Það má geta þess að hjá þeim var á síðustu vertíð mjög erfið afkoma þannig að áfallið verður enn þyngra þess vegna.

Einnig má geta þess að á síðustu vertíð var gert mikið átak í að bæta hráefnismeðferð á þessari vöru þannig að síldin sem við bjóðum Rússum er gæðavara. Við höfum staðið í þeirri meiningu að fyrir hana greiddu þeir viðunandi verð þess vegna, og þau viðskipti væru báðum í hag.

Ég efast ekki um vilja stjórnvalda til að finna lausn á þessu máli og þakka fyrir þær yfirlýsingar sem hér hafa gengið í því efni. Ég óska þeim allra heilla í þeim viðskiptum.